Ísraelski lyfjaframleiðandinn Teva hefur náð samkomulagi um 4,25 milljarða Bandaríkjadala sáttargreiðslu vegna sölu fyrirtækisins á ópíóðum í Bandaríkjunum. Upphæðin samsvarar um 584 milljörðum króna. Teva keypti íslenska lyfjafyrirtækið Actavis árið 2016 en Actavis var meðal þeirra lyfjafyrirtækja sem seldu hve mest af ópíóðalyfjum í Bandaríkjunum árunum 2006 til 2014.
Sagt er frá því á vef New York Times að samkomulagið feli í sér að fyrirtækið greiði stjórnvöldum og samfélögum frumbyggja í Bandaríkjunum bætur á þrettán ára tímabili. Fjármunirnir sem fyrirtækið mun þurfa að greiða eru, líkt og áður segir, 4,25 milljarðar dala en inni í þeirri tölu eru bætur að fjárhæð tæplega 550 milljón dala, um 75 milljarða króna, sem fyrirtækið hafði áður fallist á að greiða stjórnvöldum í San Fransisco, Florida, West Virginia, Texas, Louisiana og Rhode Island.
„Þrátt fyrir að í samkomulaginu felist ekki viðurkenning á misgerðum, þá er það í hag fyrirtækisins að ljúka þessum málum og einbeita sér þess í stað að þeim sjúklingum sem við þjónustum á degi hverjum,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Árið 2016 keypti Teva íslenska lyfjafyrirtækið Actavis af Allergan en til þess að hægt sé að ljúka málum Teva, þarf Allergan einnig að ganga frá samkomulagi um sáttagreiðslur. Von er á að þeim viðræðum ljúki fljótlega.
Markaðshlutdeild Actavis í sölu ópíóða 32 prósent
Í greiningu Washington Post frá því árið 2019 sem fjallar um ópíóðafaraldurinn sem unnin var upp úr gögnum bandaríska lyfjaeftirlitsins kemur fram að Actavis hafi verið næst stærsti framleiðandi ópíóðalyfja á bandarískum markaði á árunum 2006 til 2014. Á þessu tímabili nam markaðshlutdeild Actavis 32 prósentum en félagið seldi 32 milljarða pilla á tímabilinu. Fyrr á þessu árið fjallaði Stundin sérstaklega um hlut Actavis í ópíóðafaraldrinum.
Í frétt Reuters um samkomulagið segir um ópíóðafaraldurinn í Bandaríkjunum að hann hafi dregið í það minnsta hálfa milljón Bandaríkjamanna til dauða á síðastliðnum tveimur áratugum. Þar af létust 80 þúsund vegna notkunar ópíóðalyfja árið 2021 þar í landi.