Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna ræddu söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni og hver sjónarmið Vinstri grænna væru gagnvart bankasölu fyrir næstu kosningar.
Hann spurði hana meðal annars hvort Vinstri græn, ef þau kæmust í næstu ríkisstjórn, myndu standa að því að Íslandsbanki yrði seldur að fullu. Katrín sagði að Vinstri græn í fyrsta lagi hefðu aldrei haft þá stefnu að ríkið ætti að eiga allt bankakerfið og í öðru lagi að Landsbankinn yrði ekki seldur.
Verið að einkavæða Íslandsbanka í óþökk þjóðarinnar
„Það er mikil eftirspurn eftir umbyltingu fjármálakerfisins. Slík umbylting mætti til dæmis felast í því að færa hluta bankastarfsemi yfir á samfélagsbankastig þar sem bankar gætu jafnframt starfað með græn sjónarmið og loftslagsmarkmið að leiðarljósi umfram hina strípuðu arðsemiskröfu,“ sagði þingmaðurinn.
Benti hann á að þetta væri eitthvað sem Katrín hefði sjálf lengi talað fyrir. „Ég óttast að þessa dagana séum við að missa ákveðið tækifæri til slíkra breytinga vegna þess að verið er að einkavæða Íslandsbanka í óþökk þjóðarinnar. Meðan ríkið átti tvo banka hefði verið svo borðleggjandi að beita sér fyrir betra bankakerfi í gegnum eignarhlut ríkisins. Hæstvirtur ráðherra hefur látið hafa eftir sér að ákvarðanir um frekari bankasölu bíði næstu ríkisstjórnar.“
Spurði hann því Katrínu hvort flokkurinn væri einhuga í þeim málum. „Munu Vinstri græn, ef þau komast í næstu ríkisstjórn, standa að því að Íslandsbanki verði seldur að fullu?“
Bætti hann því við að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefði sagst vilja ganga lengra og selja stóran hlut í Landsbankanum á næsta kjörtímabili. „Þegar á hólminn er komið og Vinstri græn fara aftur í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hver fær að ráða? Geta kjósendur treyst því að Vinstri græn muni ekki standa að ríkisstjórn sem stefni á að einkavæða Landsbankann? Eða verður það kannski bara eins og þegar við treystum því að VG myndi ekki stökkva í stjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2017?“ spurði hann.
Aldrei haft þá stefnu að ríkið eigi að eiga allt bankakerfið
Katrín svaraði og benti á að Andrés Ingi hefði sjálfur verið á sama landsfundi og hún árið 2017 sem samþykkti stefnu VG en hann var þá enn í flokknum.
„Þannig að háttvirtur þingmaður veit það alveg jafn vel og ég hver stefna VG er í þessum málum og við hana hefur verið staðið á þessu kjörtímabili. Stefna VG er að ríkið eigi Landsbankann. Sú stefna hefur ekki breyst. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að eiga fleiri banka. Íslandsbanki kom upp í fang ríkisins, eins og háttvirtur þingmaður veit líka ósköp vel, með tilteknum hætti í tengslum við stöðugleikasamninga. Og VG hefur aldrei haft þá stefnu að ríkið eigi að eiga allt bankakerfið. Það veit háttvirtur þingmaður líka jafn vel og ég af því að hann var á sama landsfundi þar sem síðasta ályktun var samþykkt um þetta, um að ríkið skyldi eiga Landsbankann. Við þá stefnu mun VG standa, eins og það hefur staðið við hana á þessu kjörtímabili,“ sagði hún.
Sagðist Katrín sem formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa sagt að flokkurinn myndi vinna með þeim sem væru reiðubúnir að vinna með honum að málum sem væru til framfara fyrir íslenskt samfélag.
„Þar forgangsröðuðum við heilbrigðismálum og loftslagsmálum og í þeim málaflokkum hefur náðst ótvíræður árangur á þessu kjörtímabili, enda er ég þeirrar skoðunar að það skipti máli fyrir stjórnmálamenn að ná árangri, ekki bara tala. Þannig að ég er mjög ánægð með árangur VG á þessu kjörtímabili og ég mun leggja á það áherslu að VG leiði áfram ríkisstjórn og haldi áfram að ná árangri fyrir íslenskt samfélag.“
Spurði hvort ráðherrann teldi þjóðina illa upplýsta
Andrés Ingi steig aftur í pontu og sagði að stefna Vinstri grænna kynni að vera sú að ekki ætti að selja Landsbankann. Sagði hann í því samhengi að hann hefði átt orðastað við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þingmann VG við lok vorþings þar sem hún „þrástagaðist á því að stefna Vinstri grænna væri að banna olíuleit en gat ekki treyst sér til að leggja fram nefndarálit þess efnis“.
Því spurði hann Katrínu hvort hún myndi standa gegn hugmyndum Bjarna um að einkavæða Landsbankann ef Vinstri græn kæmust í ríkisstjórn eftir kosningar. „Í ljósi þess að kannanir síðustu misserin hafa allar sýnt fram á andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar við bankasölu, telur ráðherrann að andstaða þjóðarinnar sé einfaldlega vegna þess að hún sé illa upplýst?“ spurði hann.
Sérstök áhersla lögð á dreift eignarhald og gagnsæi
Forsætisráðherra svaraði í síðara sinn og sagði að svör hennar í fyrra svari hefðu verið mjög skýr. „Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur staðið við sína stefnu á þessu kjörtímabili og meðal annars þess vegna var stjórnarsáttmáli samþykktur með yfirgnæfandi meiri hluta í flokksráði Vinstri grænna, þó að háttvirtur þingmaður hafi ekki samþykkt hann og átt mjög erfitt með að styðja þessa ríkisstjórn, enda er hann farinn. En við í VG höfum staðið við okkar stefnu og höldum því bara áfram.“
Benti hún á að sala Íslandsbanka, sem boðuð var í stjórnarsáttmála, hefði verið rædd á Alþingi. „Það var óskað eftir áliti efnahags- og viðskiptanefndar um málið og fyrir liggja álitsgerðir hennar um hvaða sjónarmið eigi að hafa að leiðarljósi við þessa sölu. Þar var sérstök áhersla lögð á dreift eignarhald og gagnsæi og að farin yrði sú leið sem farin er. Sömuleiðis var í raun og veru bæði stuðlað að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika og það var líka lagt upp úr því að þeir sem byðu lægri fjárhæðir yrðu ekki skertir.“
Katrín sagði að lokum að salan hefði verið framkvæmd í samræmi við vilja meirihluta Alþingis – og upp úr því hefði verið lagt að fylgja þeirri leiðbeiningu og tryggja dreifða eignaraðild, gagnsæi og skýr og vönduð vinnubrögð. „Ég vonast til þess að það verði til að auka traust.“