Atvinnuleysi á Íslandi dróst lítillega saman í marsmánuði og mældist heilt yfir 12,1 prósent. Þar af var almennt atvinnuleysi, sem mælir þá sem voru að öllu leyti án atvinnu, alls ellefu prósent sem þýðir að 21.019 manns voru atvinnulausir í lok síðasta mánaðar. Það minnkaði um 0,4 prósentustig á milli mánaða. Til viðbótar voru svo 4.186 á hlutabótum sem bætti 1,1 prósentustigi við heildaratvinnuleysið.
Þetta kemur fram í nýjum tölum um vinnumarkaðinn á Íslandi sem Vinnumálastofnun birti í gær.
Þar kom enn fremur fram að alls höfðu 6.207 almennir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en eitt ár í lok síðasta mánaðar. Þeim fjölgaði um 1.488 milli mánaða og hefur fjölgað um 4.009 frá því í mars í fyrra.
Þegar hópurinn sem hefur verið atvinnulaus í hálft ár eða meira er skoðaður þá taldi hann 13.647 um síðustu mánaðamót. Alls fjölgaði í þeim hópi um 886 milli mánaða.
Markmiðið að skapa sjö þúsund störf
Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi minnki áfram í apríl meðal annars vegna árstíðasveiflu og sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og verði á bilinu 9,8 til 10,2 prósent.
Ríkisstjórnin setti í síðasta mánuði af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“. Markmiðið er að skapa allt að 7.000 tímabundin störf hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir eru 4,5-5 milljarðar króna.
Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5 prósent framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að af þeim 1.583 nýjum störfum sem voru auglýst í vinnumiðlun Vinnumálastofnunar í mars væru 88 prósent þeirra komin til vegna aðgerða stjórnvalda.