Alls eru 84 prósent þeirra sem leigja íbúð af óhagnaðardrifnum leigufélögum ánægðir með húsnæðið sem þeir leigja. Þeir eru ánægðastir allra á leigumarkaði.
Ánægjan hjá þeim sem leigja hjá einkareknu leigufélögunum á Íslandi er hins vegar mun minni, en á meðal leigjenda þeirra segjast 64 prósent vera ánægð með núverandi húsnæði. Ánægjan er sömuleiðis minni hjá þeim sem leigja af sveitarfélögum, þar sem 66 prósent segjast ánægðir.
Mesta húsnæðisöryggið mælist hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi, aðeins hærra en hjá þeim sem leigja hjá ættingjum og vinum. Minnst mælist húsnæðisöryggið hjá þeim sem leigja af einstaklingi á almennum markaði en næstir í röðinni eru þeir sem leigja af einkareknu leigufélagi.
Þetta kemur fram í árlegri leigukönnun sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent gerði fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) 10. júní til 14. september síðastliðinn. Heildarfjöldi svarenda í könnuninni voru 640 og allir eldri en 18 ára.
Áætla að byggja yfir þrjú þúsund almennar íbúðir fyrir lok árs 2022
Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Hið nýja íbúðakerfi er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Lögin byggja á yfirlýsingu sem þáverandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gaf út í tengslum við kjarasamninga sem voru undirritaðir í maí 2015. Í henni var gert ráð fyrir að 2.300 íbúðir yrðu byggðar á árunum 2015 til 2018.
Lengri tíma tók hins vegar að klára lögin og fyrstu úthlutanir á grundvelli þeirra fóru ekki fram fyrr en á árinu 2016. Fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar áætlar nú að um 3.200 íbúðir verði byggðar á árunum 2016 til 2022.
Langflestar almennar íbúðir í Reykjavík
Íbúðirnar sem hafa fengið stofnframlög eru ætlaðar fyrir allskyns hópa sem eru með lágar tekjur. Þar ber fyrst að nefna þá félagshópa sem eru undir skilgreindum tekju- og eignarviðmiðum. Þau eru 535 þúsund krónur að meðaltali á mánuði fyrir einstakling og 749 þúsund krónur á mánuði fyrir hjón eða sambúðarfólk. Fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu bætast við 133.750 krónur á mánuði sem má hafa í tekjur. Heildareignir heimilisins mega þó ekki vera hærri en sem nemur 6.930.000 krónum. Stór hluti þessarar uppbyggingar, sem er afar umfangsmikil, er á vegum Bjargs íbúðafélags, sem var stofnað af ASÍ og BSRB fyrir nokkrum árum síðan, og er rekið án hagnaðarmarkmiða.
Íbúðakerfið er fjármagnað þannig að ríkið veitir stofnframlag sem nemur 18 prósent af stofnvirði almennra íbúða. Stofnvirði er kostnaðarverð íbúðarinnar, sama hvort það er við byggingu hennar eða vegna kaupa á henni.
Lang stærstur hluti þeirra íbúða sem byggðar hafa verið í almenna íbúðarkerfinu hafa risið í Reykjavík. Í umfjöllun sem Kjarninn birti í lok síðasta árs var hlutfall þeirra 73 prósent allra almennra íbúða sem höfðu risið á þeim tíma.
Lækkuðu leiguna
Í maí síðastliðnum tilkynnti Bjarg leigufélag að það hygðist lækka leigu hjá um 190 leigutökum félagsins. Meðalleigugreiðslur leigutaka áttu samkvæmt þeirri ákvörðun að lækka um 14 prósent, úr um 180 þúsund krónum í 155 þúsund. Þetta var gert í kjölfar endurfjármögnunar og endurskoðunar rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík.
Þrátt fyrir að fasteignir félagsins á Akranesi og í Þorlákshöfn hefðu einnig farið í gegnum endurfjármögnun breyttist leiguverð þar ekki, aðallega vegna breytinga á öðrum rekstrarliðum. Félagið sagði í tilkynningu í maí að leiguverð þar væri engu að síður vera hófstillt og lægra en á höfuðborgarsvæðinu, eða rúmlega 120 þúsund krónur á mánuði.