Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur áhyggjur af þeim undirtóni sem hefur verið hjá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra hvað varðar umræðu um móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag fagnaði hún afstöðu utanríkisráðherra gagnvart því að greiða hingað leið flóttafólks frá Úkraínu. „En ég verð að segja að ég hef áhyggjur af þeim undirtóni sem hefur verið hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra,“ sagði Helga Vala.
Vísaði hún þannig í orð ráðherra í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir helgi þar sem hann sagði hreint neyðarástand ríkja hjá Útlendingastofnun sem lýsti sér meðal annars í því að flóttamenn sem eru hér fyrir „teppi húsnæði og aðstöðu fyrir aðra sem við myndum vilja taka á móti“. Vísaði hún einnig í orð ráðherra í samtali við RÚV í gær þar sem hann sagði að mörg lönd hafi áhyggjur af því að fólk sem hefur ekki heilindin með sér nota þetta tækifæri til að komast inn í Evrópu.
Stuðning við flóttafólk frá Úkraínu megi ekki nota til að grafa undan öðru flóttafólki
„Þessi málflutningur er með öllu óboðlegur,“ sagði Helga Vala. Að hennar mati er dómsmálaráðherra með þessum hætti að stilla hópum upp hvorum á móti öðrum. „Stuðning við flóttafólk frá Úkraínu má ekki nota til að grafa undan öðru flóttafólki sem einnig hefur flúið neyð, jafnvel sömu neyð, þótt það kunni að vera annarrar trúar eða af öðrum kynþætti. Það er skylda okkar sem þjóðar á meðal þjóða að veita hér stuðning og skjól, hvort sem um er að ræða úkraínskan almenning eða fólk af öðru þjóðerni og af öðrum kynþætti sem einnig flýr stríðsátök og ofsóknir,“ sagði Helga Vala.
Hún spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún tæki undir með dómsmálaráðherra og hefði sömu áhyggjur og hann af „svindli í kerfinu og misnotkun á þessari neyð?“
Forsætisráðherra svaraði ekki beint en vísaði í fund sem félags- og vinnumarkaðsráðherra átti með flóttamannanefnd á föstudag þar sem ráðherra fól nefndinni að fylgjast með ástandinu, afla gagna og skoða hvað nágrannaþjóðir Íslands hyggjast gera og gera tillögu til ríkisstjórnarinnar. Þá sagði hún að húsnæðismál Útlendingastofnunar muni ekki standa í vegi fyrir móttöku flóttamanna frá Úkraínu.
Katrín tjáði sig að öðru leyti ekki um orð dómsmálaráðherra en sagðist vilja leggja áherslu á það að um er að ræða fólk í mjög viðkvæmri stöðu. „Það skiptir að sjálfsögðu máli hvernig við tölum um þessa hópa,“ sagði forsætisráðherra.
Annar hópurinn þurfi að díla við Útlendingastofnun en hinn komi hingað í boði ríkisstjórnarinnar
Varðandi fund flóttamannanefndar benti HelgaVala á að nefndin hefur aðallega verið að hugsa um svokallaða kvótaflóttamenn en ekki það fólk sem kemur hingað á eigin vegum í leit að vernd. „Ég held að við verðum að átta okkur á því og öll ríkisstjórnin að þetta eru ólíkir hópar sem fá mjög ólíka þjónustu á Íslandi. Annar hópurinn þarf að díla við Útlendingastofnun og það sem þar á sér stað og hinn hópurinn kemur hingað í boði ríkisstjórnar.“
Katrín benti á að unnið hafi verið að því að reyna að koma á samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk en að málið hafi stoppað allnokkrum sinnum á Alþingi á síðasta kjörtímabili.
„En ég vil ítreka að við munum svara kallinu um að taka á móti fólki og ég vil líka benda á að það skiptir einnig máli að styðja betur við mannúðaraðstoð á staðnum, því að þar er staðan auðvitað mjög þung,“ sagði forsætisráðherra.