Alexandra Briem sem skipar annað sæti á lista Pírata í Reykjavík segir að umhverfið sé í fyrsta sæti í stefnu Pírata og að allar ákvarðanir borgarinnar eigi að taka með loftslagsáhrif til hliðsjónar. Vissulega geti það verið kostnaðarsamt að fara í miklar aðgerðir til að draga úr kolefnislosun en slíkar aðgerðir en hún segir það draga úr kostnaði þegar fram í sækir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í kosningahlaðvarpi Kjarnans, Með orðum oddvitanna, þar sem Eyrún Magnúsdóttir ræðir við frambjóðendur úr þeim ellefu flokkum sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara næstkomandi laugardag.
Vilja fækka bílferðum í borginni
Að sögn Alexöndru hefur ekki orðið nein kúvending á stefnu flokksins á síðustu árum en hún segir að búið sé að skerpa á stefnunni. Mikil áhersla er lögð á uppbyggingu Borgarlínu í stefnu flokksins. „Við viljum ganga lengra í að byggja upp borgarlínuna, gera það hraðar. Við viljum þétta byggðina, við stöndum 100 prósent á bakvið það. Við teljum að það sé skynsamlegasta nýtingin á landi og innviðum og þannig getum við dregið úr umferð og losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Alexandra að bætir því við að margir sem iðki bíllausan lífsstíl upplifi það sem jaðarsport.
Hún segir markmiðið ekki vera að gera alla í borginni bíllausa heldur að fækka fjölda bílferða í borginni. Það minnki þar að auki umferðarþungann á götunum. „Besta leiðin til þess draga úr traffík, líka fyrir þau sem eru á bíl, er að efla almenningssamgöngur,“ segir Alexandra.
„Reykjavík hefur til áratuga verið byggð upp þannig að fólk þurfi nokkurn veginn að vera á bíl ef það getur. Við teljum það vera mikil mistök sem þarf að vinda ofan af. Við viljum bjóða upp á valmöguleika. Við sjáum í skoðanakönnunum að fleiri vilja nota bílinn minna eða mögulega ekkert heldur en geta það. Það er mjög mikilvægt að bjóða fólki upp á þann möguleika.“
Þétt byggð dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda
Alexandra segir þétta byggð skapa grundvöll fyrir góðum almenningssamgöngum. Til dæmis séu fá hverfi í Reykjavík það þétt að þau gætu borið sporvagnakerfi. Hún bendir á að Borgarlínukerfið sé þannig úr garði gert að hægt verði að breyta því í sporvagnakerfi ef vilji verður fyrir hendi síðar meir. Að mati Alexöndru er mikilvægt að þétta byggð miðsvæðis í borginni, í hverfiskjörnum og meðfram Borgarlínuásum. Það tryggi líka rekstrargrundvöll í nærumhverfi íbúanna.
„Því þéttari sem við höfum byggðina á ákveðnum stöðum, því meiri líkur eru á því að þessi þjónusta sé nálægt þér og þá geturðu labbað eða hjólað og þarft ekki að fara endilega á bílnum. Þá dregur það líka úr traffíkinni fyrri þá sem þurfa að fara borgarhluta á milli og geta ekki notað almenningssamgöngurnar. Þannig að þetta er heildrænt besta leiðin til þess að draga úr losun, draga úr traffík og auka lífsgæði fólks,“ segir Alexandra.
Hún bendir á að vissulega geti það verið ódýrara í uppbyggingu að byggja dreift en að það muni á endanum verða dýrara fyrir samfélagið vegna dreifðari innviða. Dreifðri byggð fylgi líka aukin umferð með tilheyrandi losun koldíoxíðs og álagi á gatnakerfið.
Sex tíma gjaldfrjáls leikskóli
Í leikskólamálum vilja Píratar geta boðið upp á sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla. Alexandra segir að boðið verði upp á lengri dagvistun en sex tíma en að umframtímarnir verði þá dýrari. Þannig muni átta tíma dagvistun í kerfinu sem Píratar vilja koma á fót kosta jafn mikið og átta tíma dagvistun í dag.
Spurð að því hvort búið sé að kostnaðarmeta sex klukkustunda ókeypis dagvistun segir Alexandra að Píratar telji kostnað borgarinnar verða þann sama í nýju kerfi, aðallega vegna þess að í nýju kerfi sparist útgjöld leikskólanna á móti lægri tekjum, til að mynda launakostnaður.
Ánægð með meirihlutasamstarfið
Eitt af þeim stefnumálum sem ef til vill fer meira fyrir í stefnu Pírata en í stefnu annarra flokka eru dýramál. „Við erum dýravinir og dýravelferðarstefnan er ekki jafn kostnaðarsöm og nafnið gefur til kynna,“ segir Alexandra. „Við viljum hundagerði í öll hverfi eða í það minnsta lausagöngusvæði. Við viljum fá betri þjónustu við dýr og dýraunnendur. Við viljum tryggja öryggi lausagöngukatta og lausagöngukanína.“
Alexandra segir Pírata vera ánægða með samstarfið í borginni. Vinnan miði hins vegar oftast að því að fikra sig í átt að málamiðlunum sem allir geti sætt sig við. „Ef við viljum Píratalegri áherslur í borgarstjórn þá þurfum við fleiri Pírata í borgarstjórn,“ segir hún.
Spurð að því hvort Píratar geti unnið með hvaða flokki sem er segir Alexandra svo ekki vera. „Það myndi ég ekki segja. Ég er mjög opin fyrir ýmsum möguleikum og við erum það held ég bara flest en við höfum útilokað, og ég tel að við gerum það áfram, beinlínis samstarf við flokka sem við teljum að sé ekki treystandi, að það sé ekki hægt að stóla á þá. Svo ég segi það skýrt, ég myndi ekki vilja með Sjálfstæðisflokknum og ég myndi ekki vilja vinna með Miðflokknum. Allt annað er alveg til umræðu. Mismikillar umræðu vissulega en ég persónulega útiloka bara þessa tvo flokka.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Alexöndru í heild sinni í spilaranum hér að neðan: