„Við erum að skoða hvernig lögin eru varðandi þetta. Við sjáum ekki að það sé heimild til að endurtelja þegar yfirkjörstjórn er búin að skila skýrslu til landskjörstjórnar – þá eru þau bara búin. Þau geta ekki farið að rölta yfir í næsta herbergi og taka innsigli af – sem voru ekki einu sinni til staðar – og endurtelja af því bara. Og án þess að umboðsmaður sé til staðar, þetta er bara bölvað rugl.“
Þetta segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata í samtali við Kjarnann. Um miðjan dag í gær greindu fjölmiðlar frá því að öll atkvæði í Norðvesturkjördæmi yrðu talin aftur vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum á milli kjördæma. Ingi Tryggvason, yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sagði að kjörstjórn hefði ákveðið að telja atkvæðin aftur vegna lítils munar. Enginn flokkur hefði farið fram á endurtalningu. Eftir endurtalninguna færðust jöfnunarsæti flokka á milli kjördæma og þannig viku fimm einstaklingar sem töldu sig vera inni á þingi í gærmorgun fyrir öðrum fimm seinni partinn.
Björn Leví segir að það bjóði upp á „alls konar rugl“ þegar yfirkjörstjórn sé búin að senda inn sínar tölur en þegar hún sjái niðurstöðuna á landsvísu ákveði hún að fara í endurtalningu. „Þetta bara gengur ekki.“
Hvaða tölur á að nota?
„Spurningin hjá okkur er hvort landskjörstjórn ætli að nota tölurnar sem komu úr upprunalegu skýrslunni eða endurtalninguna. Við sjáum ekki að það sé heimild fyrir því í lögum að endurtelja yfirleitt. Það er hægt að kæra upprunalegu tölurnar – upprunalegu talninguna – til kjörbréfanefndar og þar yrði ákveðið að endurtelja.“
Björn Leví segir að þau hjá Pírötum séu að skoða það hvernig hægt sé að tryggja að farið sé eftir lögum um það hvernig þingmönnum sé skilað til þingsins þegar allt kemur til alls. „Síðan gæti komið upp alls konar vesen, eins og kærur sem kjörbréfanefnd þyrfti að taka afstöðu til sem gæti leitt til ákvarðana um það að endurtelja. En núna gætu kjörgögnin verið spillt og þá þyrfti uppkosningu.“
Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi er kjörbréfanefnd kosin á fyrsta fundi þingsins eftir kosningar. Hlutverk hennar er að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna. Kýs nefndin sér formann og framsögumann og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns teljist gild.
„Þetta er svo mikið kaos“
Í frétt RÚV í morgun kom fram að óskir hefðu komið fram um endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi og muni yfirkjörstjórn þar taka afstöðu til þess á fundi í dag. Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, segir í samtali við RÚV að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sjái hún ekki þörf á endurtalningu í öðrum kjördæmum. Það sé þó yfirkjörstjórna á hverjum stað að taka ákvörðun um það enda hafi landskjörstjórn ekki boðvald yfir yfirkjörstjórnum.
Björn Leví segir í því samhengi að ekki sé tími til að endurtelja. „Þetta er svo mikið kaos.“
„Við ætlum að funda með lögfræðingum og skoða þetta. Gömlu kosningalögin eru hnoðtexti og ekkert rosalega þjált orðaður. En allavega er það mjög skýrt að endurtalning eða eitthvað sem tengist því er hvergi í textanum í lögunum. Það er bara talað um talningu og þegar yfirkjörstjórn telur þá getur hún alltaf tekið bunkann sem hún er búin að telja og talið aftur. Þau margtelja hvort sem er og það er ekkert óeðlilegt. En þau voru búin að senda frá sér tölur og þá á talningin að vera búin. Það er ekkert sem heitir endurtalning eftir þann part. Endurtalning áður en kjörstjórn sendir frá sér skýrslu er allt annað.“