Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar ræddu raforkumál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Jóhann Páll benti á að síðan reglugerðarákvæði um söluaðila raforku til þrautavara var sett árið 2019 hefðu tugþúsundir heimila og fyrirtækja verið flutt yfir í viðskipti til eins fyrirtækis á samkeppnismarkaði sjálfkrafa og án þess að hafa neitt um það að segja.
Málið varðar verðlagningu N1 Rafmagns, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, á rafmagni til þeirra fjölmörgu viðskiptavina sem koma óafvitandi i viðskipti hjá félaginu á grundvelli þrautavarakerfis. Kjarninn greindi frá því í janúar að verðlagningin hefði verið harðlega gagnrýnd af samkeppnisaðilum félagsins og jafnvel kölluð okur en Orkustofnun rannsakar nú viðskiptahætti fyrirtækisins.
Jóhann Páll benti á í ræðu sinni að neytendur hefðu verið látnir greiða allt að 75 prósent hærra rafmagnsverð en almennir viðskiptavinir og rukkaðir þannig um langhæsta rafmagnsverð á Íslandi. Þannig hefði verið okrað á heimilum og fyrirtækjum í skjóli regluverks sem stjórnvöld bjuggu til.
Vænti hann þess að Guðlaugur Þór hefði fylgst vel með þessu máli. Spurði hann því ráðherrann hvort þetta væri í samræmi við hugmyndir hans um jafnræði í atvinnulífinu og virka samkeppni þegar stjórnvöld flyttu þúsundir viðskiptavina til eins fyrirtækis á samkeppnismarkaði og veittu þannig einu fyrirtæki forgjöf umfram aðra aðila á markaði.
Enn fremur hvort Guðlaugur Þór teldi forsvaranlegt að þetta væri gert án þess að kveðið væri með neinum hætti á um ábyrgð og skyldur fyrirtækisins gagnvart neytendum.
Reglugerðin örugglega ekki „gerð af illum hug“
Guðlaugur Þór sagði að stutta svarið við þessari fyrirspurn væri einfaldlega það að sú reglugerð sem þarna var sett fram hefði örugglega ekki verið gerð af illum hug.
„Hins vegar liggur það alveg fyrir, út af þeim aðstæðum sem háttvirtur þingmaður vísar til, að við erum að skoða þessi mál. Það sem við viljum auðvitað er að heimilin í landinu fái bæði örugga og góða orku á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er. Það er markmiðið.
Það er hins vegar, eins og háttvirtur þingmaður veit og hann nefnir hér, eitt mál og það eru fleiri mál sem hafa sannarlega verið áberandi, og ég ræddi alveg sérstaklega í háttvirti atvinnuveganefnd í morgun, sem eru raforkumálin í það heila út af þeirri stöðu sem upp er komin. Við erum núna að gera hluti sem við ættum alls ekki að gera og eru að færa okkur aftur á bak í okkar loftslagsmarkmiðum, þ.e. að brenna olíu til að skaffa heimilum í landinu raforku,“ sagði hann.
Varðandi N1 málið þá sagði ráðherrann að stjórnvöld hefðu ekki einungis augun á því heldur væru þau sömuleiðis að skoða sérstaklega hver reynslan væri af því fyrirkomulagi sem væri núna og hvernig hægt væri að laga það sem miður færi.
„Ég bara þakka háttvirtum þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum málum vegna þess að það er mjög mikilvægt að við vöndum hér til verka. Það verður mikið að gera, virðulegi forseti, í raforkumálum núna á næstu mánuðum og misserum.“
Spurði hvernig ráðherra ætlaði að bregaðst við
Jóhann Páll fór í pontu í annað sinn og benti á að ráðherra færi með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart allri stjórnsýslu orkumála.
„Mér heyrist á honum, þótt hann hafi kannski ekki sagt það alveg hreint út af virðingu við forvera sinn í embætti, að hann sé sammála mér um að þetta regluverk sem var búið til sé með öllu ótækt, samræmist ekki sjónarmiðum um jafnræði í atvinnulífi, um virka samkeppni og um neytendavernd. Þá hlýtur maður auðvitað að spyrja hvernig hæstvirtur ráðherra ætlar að bregðast við,“ sagði hann.
Hann spurði enn fremur hvernig ráðherra sæi fyrir sér að bregðast við tveimur úrskurðum sem fallið hefðu þar sem úrskurðarnefnd raforkumála felldi úr gildi ákvörðun Orkustofnunar um val á söluaðila raforku til þrautavara. „Hvernig ætlar ráðherra að bregðast við og hvenær verður það gert?“ spurði hann.
Markmiðið skýrt: Að íslensk heimili og fyrirtæki hafi aðgang að góðri umhverfisvænni orku
Guðlaugur Þór svaraði og sagði að málið væri stórt. „Þetta er mál sem við hefðum kannski þurft að hafa augun meira á, og þá er ég bara að vísa almennt í þingið. Ég hef svo sem ekki gert neinn samanburð á því en mér sýnist eins og við séum búin að ræða meira núna þennan mikilvæga málaflokk á síðustu tveimur vikum en við höfum gert í mjög langan tíma. Ég ætla ekki að fullyrða hversu langur tími það er. Og sem betur fer bíða mín hér í þinginu sérstakrar umræður sérstaklega um raforkumálin.
Ég ætla ekki hér á mínútu að úttala mig um flókin mál að öðru leyti en því að markmiðið er alveg skýrt. Markmið er að sjá til þess að íslensk heimili og íslensk fyrirtæki, sérstaklega smærri fyrirtæki, hafi aðgang að góðri umhverfisvænni orku. Það er það sem við erum að vinna að og háttvirtur þingmaður vísaði hér til. Hann vakti athygli á einum þætti en það er af mörgu öðru að taka,“ sagði hann að lokum.