Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist vera orðinn leiður á „landsbyggðarrasisma höfuðborgarbúa og Ríkisútvarpsins“ sem hann telur að hafi birst í fyrsta þætti af Verbúðinni, sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.
Þættirnir, sem koma úr smiðju Vesturports og eru skrifaðir af þeim Gísla Erni Garðarssyni, Birni Hlyn Haraldssyni og Mikael Torfasyni, eru átta talsins í þessari fyrstu þáttaröð. Ásmundur var ekki ánægður með þann fyrsta.
„Í þessu framlagi ríkisútvarpsins til menningarinnar í landinu er dregin upp sú mynd af fólki í sjávarplássi að þar sé meira og minna um undirmálsfólk. Topp skipstjórar séu drykkjusjúklingar sem láti troða amfetamíni í óæðri endann á sér. Samfarir þar sem ekkert er dregið undan en ljótleikinn í aðalhlutverki. Þá er fiskvinnslufólkið ekki látið líta vel út eins ég upplifði það,“ skrifaði þingmaðurinn í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
Töluverða nekt bæði kvenna og karla mátti sjá í þessum fyrsta þætti af Verbúðinni. Ásmundur sagði að konur hefðu verið lítillækkaðar í þættinum, „með fáránlegu stripli“ sem engan tilgang hefði, og spurði hvort þetta væri „menningarframlag Ríkisútvarpsins“ til MeToo-hreyfingarinnar.
„Er ekki komin tími til að landbyggðarrasisma menningarvitanna og Ríkisútvarpsins linni. Baráttumálum Ríkisútvarpsins og samstarfsaðilum þess má koma á framfæri á annan hátt en gera lítið úr fólki sem vinnur mikilvæg gjaldeyrisskapand[i] störf á landsbyggðinni og í sjávarplássum allt í kringum landið,“ skrifaði þingmaðurinn.
Í athugasemdum við Facebook-færslu þingmannsins taka sumir undir þessa gagnrýni hans á fyrsta þátt Verbúðarinnar, á meðan að aðrir eru á öndverðum meiði. Páll Valur Björnsson fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar er í síðarnefnda hópnum, en hann segir þáttinn hafa fært fram ótrúlega raunsanna lýsingu á íslensku samfélagi í upphafi níunda áratugarins.
Páll Valur segir síðan Ásmundi að hætta „þessu bulli um höfuðborg vs landsbyggð“ – og að bætir við að það sé „ótrúlega þreytt tugga“ sem þingmenn eigi „aldrei að taka sér í munn.“
Það er ekki oft sem ég sest við sjónvarpið. Gerði það þó í kvöld og horfði á Verbúðina á Ríkisútvarpinu. Ég verð að...
Posted by Ásmundur Friðriksson on Sunday, December 26, 2021