Tillaga allra stjórnarandstöðuflokka, um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu, verður tekin á dagskrá Alþingis beint eftir páska. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins. Hann segir mál sem borið sé fram af fjórum formönnum stjórnarandstöðuflokka hafi meiri vigt en almenn þingmannamál og því hafi hann ákveðið að málið verði það fyrsta sem verður á dagskrá eftir páskafrí.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi þetta á þinginu nú síðdegis, og er ósátt við að málið skuli ekki fara fyrr á dagskrá þingsins. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vakti máls á þessu og gerði athugasemd við að málið væri ekki á dagskrá þingsins í dag. „Það hlýtur að vekja spurningu um hvað tefji þegar þingmenn fjögurra flokka af sex hér á þingi, formenn þessara sömu flokka, leggja fram slíka tillögu. Af hverju fæst hún ekki sett á dagskrá til umræðu? Er þetta enn ein tilraunin til að halda þinginu frá umræðu um þessi mál sem hafa verið í umræðu alls staðar annars staðar, liggur við, en í þinginu að undanförnu?“
Einar svaraði þessu og sagðist auðvitað vera ljóst að á bak við þessa tillögu standa formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna, „og vildi þess vegna greiða fyrir því að málið færi á dagskrá. Niðurstaða forseta var sú að þetta mál verður þá tekið fyrir strax að loknu páskahléi á Alþingi.“
„Mér finnst ekki í lagi að segja við okkur að þetta geti beðið fram yfir páska,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þá. Undir þessar kröfur tóku fleiri stjórnarandstæðingar í kjölfarið. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði lágmark að stjórnarandstöðunni væri umbunað fyrir að fara réttar boðleiðir með ákvörðunarvaldið og málið fari á dagskrá. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefði ekki farið rétta boðleið, öfugt við stjórnarandstöðuna.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það fáheyrt að mál af þessu tagi fáist ekki rætt á þingi. „Þar fyrir utan finnst mér að hérna sé heldur betur verið að undirstrika þá gjá sem hefur orðið milli þings og þjóðar þegar við blasir að þetta er mál sem 80% þjóðarinnar vilja að nái fram að ganga. Þannig eru síðustu skoðanakannanir.“ Valgerður Bjarnadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, tóku í sama streng.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi þetta einnig. Hann sagðist hafa heyrt hugmynd á göngum þingsins um að takmarka ætti ræðutíma þegar tillagan verður rædd. Það vill hann ekki. „Ég held að það sé lykilatriði að við ræðum tillöguna vel og lengi og notum tækifærið og hrekjum þær bábiljur og þau rangindi sem hafa komið fram í þessu máli og ræðum ESB-málið af fullri alvöru.“