Í fyrra voru rúmlega 243 tonn flutt inn af graskerjum og flöskukerjum, líkt og tollflokkurinn heitir í tölum Hagstofu Íslands. Í október einum saman voru tonnin 123 sem skýrist auðvitað af hrekkjavökunni sem aðeins á örfáum árum hefur fest sig í sessi meðal margra Íslendinga.
Árið 2019 voru flutt inn tæplega 193 tonn af þessum appelsínugulu hlussum sem eru víst ávöxtur en ekki grænmeti í plöntufræðunum. Í fyrra jókst innflutningurinn því um 25 prósent á milli ára. Ef litið er aðeins til innflutnings í október jókst hann um 27 prósent á milli áranna 2019 og 2020.
Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa verið flutt inn 95 tonn en það segir auðvitað eingöngu örlítið brot af sögunni: Enn á eftir að taka saman tölur fyrir sjálfan hrekkjavökumánuðinn. Ef aukningin verður 25 prósent líkt og hún var milli áranna á undan hafa hvorki meira né minna en 155 tonn af graskerjum verið flutt inn. En þetta er auðvitað aðeins tilgáta enn sem komið er byggð á því að appelsínugulu ferlíkin eru ekki aðeins fyrirferðarmikil í verslunum heldur einnig á samfélagsmiðlum – oft við hlið stoltra útskurðarmeistara nú eða með logandi kerti inn í.
En svo fer þetta auðvitað að lang mestu leyti allt saman í ruslið. Og á þeim stöðum þar sem lífrænn úrgangur er ekki flokkaður, sem er staðan víðast, þá enda bæði útskornu hrekkjavökuhöfuðin og gumsið innan úr þeim með almennu heimilissorpi.
Grasker eru auðvitað matur. Þau eiga rætur að rekja til Mið-Ameríku þótt þau sem þar uxu villt fyrir þúsundum ára eigi lítið sameiginlegt í útliti með hinum ofvöxnu graskerjum nútímans. Þau grasker sem við þekkjum hafa verið rætkuð í Norður-Ameríku í aldir og fólk sem þar bjó, löngu áður en Evrópumenn létu þar sjá sig, nýtti þau til matar.
Grasker hafa verið flutt inn til Íslands frá 26 löndum síðustu árin en mest af þeim kemur frá nágrönnum okkar; Dönum, Bretum og Þjóðverjum. Í Bretlandi er um 15 milljón grasker ræktuð og seld árlega en ætla má að rúmlega helmingur þeirra sé ekki étinn heldur meðhöndlaður eins og farið er að gera hér á landi: Til skrauts til skamms tíma. Framleiðslan hefur sprungið út í Þýskalandi á síðustu árum, hún tvöfaldaðist til að mynda milli áranna 2006 og 2016. Mörg eru þau ræktuð til matar en flest til skrauts og frægra graskerssýninga þar sem stærsta og furðulegasta graskerið fær vinninginn.
Þau grasker sem seld eru í verslunum í október, hér á landi sem annars staðar, eru í seinni tíð fyrst og fremst ræktuð til að sinna hlutverki sínu á hrekkjavöku og eru mjög vatnsmikil og gróf. Þau grasker sem fólk borðar helst eru fínlegri og bragðmeiri.
En appelsínugulu risarnir eru þó ætir. Einfaldasta leiðin til að nýta innvolsið úr þeim er að frysta það, með steinum og öllu, og nota í grænmetissoð sem aftur má svo nota til að gera súpur. Þeir sem vilja ganga lengra geta bakað úr graskerinu eða gert bökur. Ágætt er að hafa í huga að grasker spretta ekki úr engu. Það tekur um þrjá mánuði að rækta eitt grasker og til þess þarf næringarefni, vatn og nóg pláss.
Þótt flestir séu eflaust búnir að henda gumsinu má alltaf hugsa til næsta árs. Til að minnka matarsóun er hér t.d. listi yfir fjórtán uppskriftir. Þær eru auðvitað mun fleiri á netinu og finnast með einföldu googli.