Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varformaður Sjálfstæðisflokksins leiðir í prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi eftir fyrstu tölur með 532 atkvæði. Í öðru sæti er Teitur Björn Einarsson með 359 atkvæði í 1.-2. sæti. Haraldur Benediktsson sem hefur sóst eftir áframhaldandi forystu fyrir flokkinn í kjördæminu er í þriðja sæti með samtals 389 atkvæði í 1.-3. sæti. Í fjórða sæti er Sigríður Elín Sigurðardóttir með 306 atkvæði samtals í 1.-4. sæti.
Fram kom í beinni útsendingu á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins að talin hefðu verið 798 aktvæði úr flestum en ekki öllum kjördeildum. Alls greiddu um 2200 atkvæði í prófkjörinu sem fór fram dagana 16. júní og 19. júní, í dag, en kjörstöðum lokaði nú klukkan 21.
Fyrsta sæti eða ekkert fyrir Harald
Fyrr í vikunni greindi Haraldur frá því í viðtali við Bæjarins besta að hann hygðist ekki þiggja annað sæti á lista flokksins í kjördæminu fari það svo að hann tapi í baráttunni um oddvitasætið. Í viðtalinu sagði Haraldur að ef flokksmenn kysu einhvern annan í oddvitasætið þá væri það skýr niðurstaða. „Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.“
Í síðustu kosningum leiddi Haraldur lista flokksins í kjördæminu en Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var í öðru sæti listans. Frá kosningunum 2017 hefur Þórdís Kolbrún orðið ráðherra auk þess sem hún var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún gaf það út síðasta haust að hún ætlaði ekki að skipta um kjördæmi og að hún myndi sækjast eftir efsta sæti listans.
Samflokkskonur þeirra Haraldar og Þórdísar lýstu yfir óánægju með yfirlýsingu Haraldar. Líkt og fjallað er um í umfjöllun Vísis var ákvörðuninni líkt við hótanir í garð samflokksfólks í kjördæminu og Haraldur sagður frekur. Rósa Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði Harald hafa beitt svipuðum brögðum í prófkjöri flokksins í kjördæminu árið 2013 þegar Haraldur barðist um annað sætið við Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur. Í færslu sinni á Facebook spyr Rósa: „Getur Haraldur Benediktsson ekki keppt við konu án hótana?“