Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mun leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Þórdís Kolbrún hlaut alls 1.347 atkvæði í 1. sætið. Alls greiddu 2.289 atkvæði í prófkjörinu og voru gild atkvæði 2.232 talsins.
Kosningin í fyrsta sæti var nokkuð afgerandi en baráttan um oddvitasætið stóð á milli Þórdísar Kolbrúnar og Haraldar Benediktssonar sem leiddi lista flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum. Haraldur hlaut alls 786 atkvæði í fyrsta sætið. Haraldur endaði í öðru sæti í prófkjörinu með samtals 1.061 atkvæði í 1.-2. sæti.
Oddvitaslagur með sanni
Nokkur titringur hefur verið í kringum prófkjörsbaráttu oddvitans og varaformannsins. Til að mynda ákvað Halldór Jónsson að segja sig frá formannsstöðu í kjördæmisráði flokksins eftir að Þórdís Kolbrún ákvað að fara gegn Haraldi og sækjast eftir oddvitasætinu. Halldór skrifaði bréf til forystu flokksins þar sem sagði meðal annars að Þórdís Kolbrún hefði að hans mati ekki sett fram ríkar málefnalegar ástæður fyrir því að skora oddvita flokksins í kjördæminu á hólm en um málið var fjallað í Skessuhorni.
Haraldur sagði í vikunni í viðtali við Bæjarins besta að hann hygðist ekki taka annað sæti á lista, fari það svo að hann tapaði í baráttunni um oddvitasætið. Þessir úrslitakostir féllu í grýttan jarðveg hjá samflokkskonum Haraldar, þeim var líkt við hótanir í garð samflokksfólks í kjördæminu og Haraldur auk þess sagður frekur, líkt og fjallað er um í umfjöllun Vísis. En niðurstaðan er annað sætið fyrir Harald og því er allt útlit fyrir að hann muni ekki setjast á þing eftir komandi kosningar.
Teitur Björn gæti verið á leið á þing á ný
Í þriðja sæti var Teitur Björn Einarsson með alls 1.190 atkvæði í 1.-3. sæti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag tvo kjördæmakjörna þingmenn í Norðvesturkjördæmi og ef Teitur Björn hoppar upp í annað sætið í stað Haraldar gæti hann því verið á leið á þing á ný. Teitur sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 2016 til 2017. Á kjörtímabilinu sem senn fer að ljúka hefur Teitur Björn verið varaþingmaður flokksins. Áður hafði hann meðal annars starfað sem aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, árin 2014 til 2016, í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar.
Sigríður Elín Sigurðardóttir endaði í fjórða sæti í prófkjörinu með alls 879 atkvæði í 1.-4. sæti. Sigríður er 21 árs sjúkraflutningakona og nemi, búsett á Akranesi.