Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að „ógn við lýðræðið“ hafi falist í skilaboðum sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS setti fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu í síðustu viku.
Í þeirri grein sagði Heiðrún Lind að það hefði verið „sérkennilegt“ af fréttastofu Stöðvar 2 að velja Þorgerði sem viðmælanda um skoðanakönnun Maskínu sem fjallaði um áhyggjur landsmanna af samþjöppun í sjávarútvegi, þar sem stefna Viðreisnar í málaflokknum sé til þess fallin að auka enn samþjöppun í greininni.
Þorgerður Katrín svarar þessum ummælum og skrifar í Fréttablaðið í dag að Heiðrún Lind hafi fært fréttamönnum þau skilaboð „að háttsemi þeirra sé álitin sérkennileg ef þeir tala við stjórnmálamenn, sem bergmála ekki málflutning SFS“.
„Hér eru sterkustu hagsmunasamtök landsins að beita óbeinum áhrifum til að loka fyrir frjálsa hugsun. Það er ógn við lýðræðið,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Stefna Viðreisnar sé til þess fallna að auka samþjöppun
Í grein sinni í Fréttablaðinu í síðustu viku sagði Heiðrún Lind að Viðreisn hefði „gengið hart fram með stefnu um innköllun aflaheimilda og endurúthlutun þeirra með uppboðum“ og að þekkt áhrif slíkra ráðstafana væru „aukin samþjöppun, þar sem hinir stærri og fjárhagslega sterku bera sigur úr býtum og heimildir hinna smærri fjara út.“
Heiðrún Lind sagði að það væri „undarlegt“ að fréttamaður Stöðvar 2 hefði ekki spurt Þorgerði Katrínu að því hvernig stefna Viðreisnar færi saman við niðurstöðu könnunar Maskínu, um áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í ljósi kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi.
„Flokkurinn boðar jú skýrlega að auka enn á áhyggjur fólks af samþjöppun í sjávarútvegi. Næst verður kannski spurt um hvort fólk hafi miklar eða litlar áhyggjur af aukinni samþjöppun og byggðaröskun vegna uppboða á aflaheimildum. Ég hygg að flestir hafi áhyggjur af því, ef frá eru taldir kjósendur þess flokks sem beinlínis hefur það á stefnuskránni að flýta samþjöppun,“ skrifaði Heiðrún Lind.
Segir SFS tala fyrir dulbúnum ríkisstuðningi
Þorgerður Katrín segir í grein sinni í dag að Heiðrún Lind reyni með þessu að halda því fram að tvískinnungur felist í stefnu Viðreisnar í sjávarútvegsmálum, sem felst í því að setja hluta aflahlutdeilda á frjálsan markað og þrengja um leið möguleika stærstu sjávarútvegsfyrirtækja til að auka aflahlutdeild sína og fara yfir skilgreind mörk.
Þvert á móti segir Þorgerður Katrín tvískinnunginn felast í afstöðu SFS. „Þau segja að vernda verði litlu fyrirtækin með óhóflega lágu auðlindagjaldi en leggjast síðan alfarið gegn því að hindrað verði að stóru fyrirtækin geti sniðgengið reglur um hámarks aflahlutdeild og að skilgreiningar á tengdum aðilum verði þrengdar,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að SFS vilji að „þorri sjávarútvegsfyrirtækja greiði óhóflega lágt gjald fyrir einkarétt sinn til að nýta auðlindina. Því annars sé jú örfáum lakast settu fyrirtækjunum hætta búin“.
„Þetta er það sem kallað er pilsfaldakapítalismi. Annars vegar er þetta dulbúinn ríkisstuðningur og hins vegar skálkaskjól til að afsaka að þorri atvinnugreinarinnar greiði eigendum auðlindarinnar, þjóðinni sjálfri, ekki réttlátt gjald fyrir einkaréttinn,“ skrifar Þorgerður Katrín, sem segir SFS vera bæði með og á móti markaðsbúskap.