Almennt atvinnuleysi minnkaði um 0,6 prósentustig í síðasta mánuði og mælist nú 10,4 prósent. Samkvæmt því þá voru 20.003 einstaklingar atvinnulausir að öllu leyti í lok apríl og þeim fækkaði um 1.016 milli mánaða. Til viðbótar voru 4.268 á hlutabótaleiðinni svokölluðu og því alls 24.271 atvinnulausir að öllu leyti eða hluta í lok apríl, eða 11,5 prósent vinnuaflsins. Heildaratvinnuleysi hefur ekki mælst minna frá því í október í fyrra en það mældist 12,8 prósent í janúar.
Ástæða þess að samdráttur er nú í atvinnuleysi er rakinn til sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda, þar sem ríkissjóður borgar hluta launa þeirra sem eru ráðnir í störf, og hefðbundinna árstíðasveiflna, en störfum fjölgar iðulega í aðdraganda sumars. Til marks um þetta voru gerðir 650 ráðningarsamningar í apríl í átakinu „Hefjum störf“, sem stjórnvöld kynntu til leiks í mars.
Vinnumálastofnun spáir því að almenna atvinnuleysið fari undir tveggja stafa tölu nú í mái og verði á bilinu 9,2 til 9,8 prósent.
Þetta má lesa út úr skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi í apríl sem birt var í síðustu viku.
Koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi verði böl
Ríkisstjórnin setti í mars af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“. Markmiðið var að skapa allt að 7.000 tímabundin störf hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir eru 4,5-5 milljarðar króna. Í átakinu felst að hið opinbera greiðir hluta af launum starfsfólks sem fyrirtæki ráða til sín.
Með aðgerðunum voru svokallaðir ráðningarstyrkir víkkaðir út þannig að lítil og meðalstór fyrirtæki, með undir 70 starfsmenn, geta nú sótt um ráðningarstyrki til þess að ráða starfsmenn sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Þannig myndast hvati fyrir fyrirtæki til þess að ráða fólk til starfa sem hefur verið lengi án vinnu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við kynningu á átakinu að aðgerðirnar væru ætlaðar til að koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi verði böl í samfélaginu. „„Þarna erum við að horfa sérstaklega á þau sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá, að það sé stuðlað að því með þessum skýru aðgerðum að þau komist aftur út á vinnumarkað og verði hluti af þeirri nauðsynlegu viðspyrnu sem þarf að verða í íslensku samfélagi.“
Alls 6.495 atvinnulausir í meira en ár
Þótt aðgerðunum sé sérstaklega beint að því að reyna að koma langtímaatvinnulausum í vinnu þá hefur þeim sem hafa atvinnulausir í að minnsta kosti eitt ár haldið áfram að fjölga eftir að þær tóku gildi.
Alls höfðu 6.495 almennir atvinnuleitendur verið án atvinnu að öllu leyti í meira en 12 mánuði í lok apríl, en voru 6.207 í marslok 2021. Þeim fjölgaði því um 288 í síðasta mánuði. Frá lokum febrúarmánaðar hefur þeim fjölgað um 1.776 og frá apríl í fyrra um 4.102.
Það bættist líka lítillega við hópinn sem hefur verið atvinnulaus í sex mánuði eða lengur. Hann taldi 13.656 um síðustu mánaðamót, sem eru níu fleiri einstaklingar en tilheyrðu honum í lok mars.
Samfylkingin kynnti á miðvikudagtillögur um að hækka atvinnuleysisbætur, gera ráðningarstyrki markvissari og bjóða upp á sérstaka styrki til listafólks til að halda viðburði um allt land til að sporna við atvinnuleysi. Þar að auki vill flokkurinn veita þeim sem hafa verið atvinnulausir tvöfaldan persónuafslátt.