„Við þurfum að taka til hendinni að því er varðar samþjöppun valds og samþjöppun auðmagns í þessu kerfi,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson á Fréttavaktinni í gærkvöldi. Umfjöllunarefni þáttarins var kvótakerfið og áform um breytingar á því. Hún ræddi hið sama í Morgunútvarpinu á Rás 1 í morgun og sagði ólguna sem fylgt hafi kerfinu alla tíð sé vegna þess að það „urðu of fáir of ríkir“.
Svandísi fannst Verbúðin „algjörlega frábærir“ þættir sem hafi fengið okkur öll til að horfa í baksýnisspegilinn „og svolítið á okkur sjálf“. Þáttaröðin væri svo ekki síst um „þennan stórhættulega kokteil viðskipta og stjórnmála,“ sagði Svandís svo á Rás 1 í morgun, „peningalegra hagsmuna og pólitískra hagsmuna.“ Hættan á spillingu væri fyrir hendi í raunveruleikanum.
Sigmundur Ernir Rúnarsson spurði ráðherrann á Fréttavaktinni hvernig við hefðum „komist þangað“ og vísaði til afleiðinga kvótakerfisins.
„Þá langar mig að tala um okkar erindi, okkar vinstri manna, í stjórnmálin,“ svaraði Svandís. „Og það er að greina á milli stjórnmála og viðskipta. Það er að segja almannavaldsins annars vegar og fjármagnsins hins vegar. Og þarna sjáum við dæmi, óþægilega gott dæmi um það, að þegar þessi tvö öfl, þessir tveir kraftar í raun og veru, fara í eina sæng. Og úr því verður kjörlendi fyrir spillingu, fyrir þróun sem að verður erfið og kemur niður á fólki, á öllum almenningi.“
Svandís segir að staðan á þessum árum í sjávarútvegi, áður en kvótakerfið var sett á, hafi verið þannig að „það þurfti eitthvað að gerast“. Koma hafi þurft í veg fyrir að gengið væri um of á fiskistofna og að fjárfestingar í greininni væru of miklar. „Sumir hlutar kerfisins hafa algjörlega þjónað þeim markmiðum.“ Í grunninn væri sjávarútvegurinn að ganga mjög vel.
En að um leið og hún færi að spyrja fólk hver vandi kerfisins væri „þá koma alltaf þessi svör. Það er annars vegar að það séu of fáir sem verða of ríkir. Og hins vegar það að það eru byggðir sem hafa í raun og veru algjörlega liðið fyrir þessa kerfisbreytingu. Þetta þýðir það að við þurfum að taka til hendinni að því er varðar samþjöppun valds og samþjöppun auðmagns í þessu kerfi.“
Að hluta til væri hægt að gera það með því að vera skýrari hvað varðar tengda aðila í löggjöfinni „og sennilega þurfum við að breyta lögunum í því“. Einnig væri hægt að gera betur með eftirliti. „Með því að halda betur utan um það að það séu í raun og veru ekki tengdir aðilar sem séu með alla tauma í sínum höndum.“
Svandís sagði umboð stjórnvalda til slíks eftirlits til staðar. „Ef við eigum að ná einhverju sem heitir sátt í þessu kerfi, sem er ekki eitthvað sem við gerum á nokkrum vikum eftir fjörutíu ára spennu, þá gerum við það með því að kerfið sé að þessu leytinu til réttlátara.“
En ætlar þú að gera þetta? spurði Sigmundur Ernir.
„Já, það ætla ég að gera.“
Tilteknar breytingar væri að sögn Svandísar hægt að gera strax, m.a. að skerpa á eftirliti. En síðan þurfi að taka kerfið í heild, í samræmi við stjórnarsáttmálann, bera það saman við kerfi annarra landa, „og sjá hvort að við séum að ná þessum markmiðum“.
Svandís sagði aðspurð að það myndi sjá sér stað að í stóli ráðherra sjávarútvegs sæti manneskja sem væri með „heildar- og almanna hagsmuni númer eitt. Það er mitt hlutverk. [...] Ég lít svo á að ég sé í þessum málaflokki ráðherra allrar þjóðarinnar og alls samfélagsins en ekki tiltekinna hagsmuna.“
Algjört „algjört lykilatriði“ væri að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir, hvort sem það er fiskurinn, fallvötnin eða vindurinn, eru auðlindir „sem enginn getur átt annar en þjóðin öll“.
Spurð hvort það gæti reynst erfitt að ná þessum breytingum fram í stjórn með Sjálfstæðisflokki svaraði ráðherrann því til að stórum skrefum í stjórnmálum þurfi að ná með breiðri sátt. „Ég treysti mér til þess að stíga þessi skref með það að leiðarljósi að við séum alltaf undir flaggi heildarhagsmuna.“
Svandís segist hafa sett sér það markmið að taka saman þau verkefni sem stefnt sé á að fara í og leggja fyrir ríkisstjórn fyrir mánaðamótin og að málið verði einnig inn í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur nálgast það og sagt sína skoðun á því.
Lögin eru skýr
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta sem úthlutað er í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en tólf prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar. Til að teljast tengdur aðili er þó gerð krafa um meirihlutaeign eða raunveruleg yfirráð. Í því feldst að aðili þurfi að eiga meira en 50 prósent í öðrum aðila eða ráða yfir honum með öðrum hætti til að þeir séu taldir tengdir aðilar. Þau mörk hafa verið harðlega gagnrýnd, enda mjög há í öllum samanburði.
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Tíu stærstu með rúmlega 67 prósent kvótans
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent.
Samhliða þessari þróun hefur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja aukist gríðarlega. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út árið 2020 var alls um 665 milljarðar króna, samkvæmt sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Þegar Fiskistofa birti síðast tölur um samþjöppun aflaheimilda var eitt fyrirtæki yfir þeim lögbundnu tólf prósent hámarki, Brim sem skráð er á íslenskan hlutabréfamarkað. Brim leysti úr þeirri stöðu 18. nóvember síðastliðinn þegar það seldi aflalhlutdeild fyrir 3,4 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur. Eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, Guðmundur Kristjánsson, er forstjóri Brim og stærsti einstaki eigandi þess fyrirtækis.
Fjórar blokkir, kenndar við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið, halda á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi en aðilar innan þeirra eru ekki í öllum tilvikum skilgreindir sem tengdir samkvæmt gildandi lögum.