Næstum allir fulltrúar í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins nema Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ, segja það „mikið fagnaðarefni“ að borgarlínuverkefnið sé komið jafn langt og raun beri vitni.
Þetta kom fram í sameiginlegri bókun á fundi svæðisskipulagsnefndar 5. mars, en um var að ræða gagnbókun við sameiginlegri bókun þeirra Mörtu og Sveins Óskars, þar sem frumdragaskýrsla Borgarlínu var gagnrýnd, verkefnið sagt of kostnaðarsamt og að það myndi valda umferðartöfum að taka akreinar undir sérrými Borgarlínu. Áður höfðu fulltrúar Vegagerðarinnar haldið kynningu á frumdragaskýrslu Borgarlínu fyrir nefndarmönnum.
„Einn helsti styrkur Svæðisskipulagsins og Borgarlínu eru sá faglegi grunnur og sú þverpólitíska sátt sem um verkefnið ríkir. Aukin samkeppnishæfni og húsnæðisuppbygging á höfuðborgarsvæðinu er tryggð með uppbyggingu Borgarlínu og ljóst að styrkur svæðisins liggur í samstöðu sveitarfélaganna,“ segir í sameiginlegri bókun frá næstum öllum öðrum fulltrúum Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarness í nefndinni.
Í þeim hópi sem lagði fram bókunina voru þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Ingi Tómasson í Hafnarfirði, Sigurður Guðmundsson í Garðabæ og Ásgeir Sveinsson í Mosfellsbæ. Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í öllum þessum sveitarfélögum, auk Seltjarnarness.
Þverpólitíska sáttin sem þessi fulltrúar sveitarfélaganna tala um að sé til staðar varðandi þróun höfuðborgarsvæðisins og uppbyggingu Borgarlínu virðist þó ekki ná til fulltrúa flokksins í Reykjavík.
Tveir pólar hvað skipulagsmál varðar
Kjarninn sagði frá því fyrr í vikunni að Marta Guðjónsdóttir myndi taka sæti í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í stað Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa, sem færir sig yfir í skóla- og frístundaráð borgarinnar í staðinn.
Það vakti athygli, enda hafa þær stöllur í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks lýst afar ólíkri sýn á skipulagsþróun Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls.
Hildur ritar einmitt í dag grein í Morgunblaðið og lýsir þar allt annarri sýn á skipulagsmál borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins en lesa má út úr bókun Mörtu og Sveins Óskars um Borgarlínu.
„Lausn samgönguvandans mun ekki felast í hraðbraut gegnum Fossvogsdalinn og mislægum gatnamótum inn í Elliðaárdalinn. Lausnin mun felast í betra borgarskipulagi, dreifðari atvinnutækifærum og aukinni fjarvinnu – en ekki síst breyttum ferðavenjum og fjölbreyttum valkostum,“ segir Hildur í greininni.
Borgarfulltrúinn gagnrýnir í grein sinni tillögur hóps sem kallar sig „Áhugafólk um samgöngur fyrir alla“ (þar sem Sveinn Óskar situr einmitt í stýrihópi) og kallar hugmyndir hópsins um ódýrari Borgarlínu „metnaðarlausa útgáfu af hinu fyrirhugaða hágæða almenningssamgöngukerfi.“
„Borgarlínu Lite tilheyra færri sérakreinar, lengri biðtími og verri þjónusta. Hún er hvorki byltingarkennd né nýstárleg hugmynd. Hún hefur áður verið fullrannsökuð og þótti ekki standast gæðakröfur,“ skrifar Hildur í greininni í Mogganum.
Sjálfstæðisflokkurinn geti leitt breytingar
Hún segir að nýir samgöngukostir muni alltaf vekja viðbrögð og breytingar líka og að það hafi verið „einkennismerki sjálfstæðismanna að geta staðist slíkan brotsjó – að geta leitt á krefjandi umrótstímum og sýnt staðfestu við innleiðingu breytinga.“
Í grein Hildar segir að Borgarlínan og samhliða stokkalausnir muni leiða af sér margvíslegan ávinning fyrir gangverk og ásýnd borgarinnar.
„Þær munu tryggja mannvænna umhverfi, heildstæðari borgarhverfi og fjölbreyttari valkosti. Lausnirnar eru liður í eðlilegu þroskaferli Reykjavíkurborgar – enda einkenni þróaðra borga ekki að hinir efnaminni ferðist með bíl, heldur að hinir efnameiri ferðist með almenningssamgöngum,“ skrifar Hildur.