Mikill munur er á námsþátttöku karla og kvenna í háskólum á Íslandi, en mikilvægt er að grípa inn á fyrri stigum skólakerfisins til að draga úr honum. Þetta segir Herdís Steingrímsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við Copenhagen Business School, í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út í síðustu viku.
Hallinn byrjar snemma
Samkvæmt Herdísi virðast drengir eiga á brattann að sækja frá því skólaganga þeirra hefst hérlendis. Samræmd próf sýna að marktækur munur sé á milli kynjanna í íslenskukunnáttu, en 15 ára strákar eru tvöfalt líklegri til að geta ekki lesið sér til gagns heldur en stelpur.
Þrátt fyrir þennan mikla mun segir Herdís þó að líklega sé ekki marktækur munur á námsgreind drengja og stúlkna. Hins vegar virðist vera kynbundinn munur þegar kemur að færni og hegðunarþáttum. Hún bætir við að flest bendi til þess að slíkir eiginleikar séu ekki óumbreytanlegir og ráðist að miklu leyti af umhverfisþáttum, svo sem uppeldi, fyrirmyndum og viðhorfum.
Ýmsir mögulegir áhrifaþættir
Herdís bendir einnig á að fækkun karlkyns kennara gæti að einhverju leyti útskýrt hvers vegna drengir hafi dregist aftur úr í skólakerfinu. Sú þróun gæti leitt til þess að karlkyns nemendur hafi færri fyrirmyndir, en Herdís segir einnig að kennarar gætu verið bjagaðir í viðhorfi sínu gagnvart nemum af gagnstæðu kyni. Þó hafa rannsóknir sem skoða þessar kenningar ekki sýnt fram á afgerandi niðurstöður.
Önnur möguleg útskýring á meiri námsþátttöku kvenna í háskólanum er sú að þær hafi meiri fjárhagslegan ábata af námi heldur en karlar. Samkvæmt Herdísi geta konur vænst þess að hækka meira í launum með betri menntun heldur en karlar hér á landi, miðað við vinnumarkaðstölur Hagstofunnar. Þó segir hún að líklega liggi aðrar ástæður einnig að baki kynjahallanum í háskólum á Íslandi, þar sem munurinn á námsþátttöku karla og kvenna hafi aukist á síðustu árum, samhliða því sem fjárhagslegi ávinningur háskólanáms hefur orðið jafnari á milli kynjanna.
Að lokum segir Herdís að nýjar rannsóknir bendi til þess að staðalímyndir og félagsleg norm gætu valdið kynjahallanum. Hins vegar hafa fáar rannsóknir skoðað þessa áhrifaþætti á háskólagöngu karla og kvenna, en sýnt hefur verið að þeir hafa áhrif á aðra þætti, til dæmis vinnumarkaðsþátttöku kvenna. Þessi viðmið gætu virst vera þrálát og breytast hægt, en samkvæmt Herdísi er ýmislegt sem bendir til þess að hægt sé að breyta þeim ef réttum aðgerðum er beitt.
Hægt er að lesa grein Herdísar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.