Einungis einn flóttamaður, sem hlotið hafði alþjóðlega vernd í Grikklandi, en síðan komið sér til Þýskalands og óskað hælis þar í landi, sneri aftur til Grikklands á síðasta ári. Yfirvöld útlendingamála í Þýskalandi álíta að þeim sé óheimilt að vísa fólki til Grikklands að svo stöddu, vegna úrskurða allnokkurra þýskra dómstóla, sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að hætta á örbirgð og vanvirðandi meðferð, í skilningi Mannréttindasáttmála Evrópu, vofi yfir flóttafólki sem sent yrði aftur til Grikklands.
Þetta kemur fram í svari til Kjarnans frá fjölmiðlafulltrúa Alríkisskrifstofu fólksflutninga og flóttamanna í Þýskalandi (Bundesamt Für Migration und Flüchtlinge, BAMF).
Blaðamaður spurði að því hve margir einstaklingar, sem þegar hefðu hlotið vernd í Grikklandi hefðu komið til Þýskalands og óskað eftir hæli á undanförnum árum, og einnig að því hversu margir einstaklingar í þeirri stöðu hefðu verið sendir frá Þýskalandi og aftur til Grikklands á sama tíma.
Yfir 50 þúsund með vernd í Grikklandi komið til Þýskalands frá 2019
Í svarinu kemur fram að frá árinu 2019 hafi verið mikil fjölgun í hópi þeirra sem sækja um hæli í Þýskalandi þrátt fyrir að hafa þegar viðurkennda stöðu flóttamanns í Grikklandi. Frá upphafi árs 2019 og fram til 31. júlí 2022 voru umsóknirnar um hæli í Þýskalandi alls 50.563 talsins. Árið 2021 voru umsóknirnar 29.508 og á fyrstu sjö mánuðum þessa árs voru þær 8.638.
Fjölmiðlafulltrúi BAMF segir jafnframt að þrátt fyrir að samevrópskt regluverk um hælismál bjóði upp á að fólk sem hefur vernd í öðru landi sé sent þangað aftur hafi Evrópudómstóllinn (ECJ) komist að þeirri niðurstöðu í mars árið 2019 að brottvísun flóttamanna til Grikklands væri í ósamræmi við 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
„Í kjölfarið á þessu hafa áfrýjunarstjórnsýsludómstólar í Norðurrín-Vestfalíu, Neðra-Saxlandi og Berlín-Brandenburg – auk fjölda stórnsýsludómstóla á fyrsta dómstigi – álitið að einstaklingar sem hafa fengið vernd flóttamanns í Grikklandi eigi á hættu að lenda í örbirgð ef þeim verði vísað þangað vegna skorts á stuðningi. Brottvísunarákvarðanir BAMF sem fela í sér að fólk snúi aftur til Grikklands eru því ómögulegar sem stendur. Árið 2021 fór einungis ein manneskja aftur til Grikklands,“ segir í svarinu frá þýsku stofnuninni.
Rauði krossinn telur flutning til Grikklands óforsvaranlegan
Í kjölfar fjöldaflutningsins til Grikklands í síðustu viku ítrekaði Rauði krossinn á Íslandi skilaboð sín um að brottflutningur flóttafólks til Grikklands væri óforsvaranlegur.
„Rauði krossinn á Íslandi fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi. Félagið hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna.
Á vormánuðum birti Rauði krossinn ítarlega greinargerð um brottflutning til Grikklands, þar sem fjallað var um ýmsar hindranir sem standa í vegi þeirra sem eru með stöðu flóttamanna í Grikklandi. Meðal annars var þar fjallað um takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu, húsnæði, atvinnu og félagslegri aðstoð og framfærslu.
„Rauði krossinn telur í ljósi fjölmarga heimilda sem ber saman um óviðunandi aðstæður flóttafólks í Grikklandi, að endursendingar þess til Grikklands feli í sér verulega hættu á því þau verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð,“ segir í samantekt Rauða krossins á Íslandi.
Fáar endursendingar frá Evrópuríkjum til Grikklands á fyrri hluta árs
Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hélt erindi á fundi sem fram fór í Háskóla Íslands í hádeginu í gær, undir yfirskriftinni Erum við að drukkna í flóttafólki?
Þar vakti hann athygli á tölulegum upplýsingum, sem stafa úr grísku þingskjali, um endursendingar flóttafólks frá nokkrum öðrum Evrópulöndum til Grikklands á fyrri hluta ársins.
Samkvæmt því sem þar kemur fram vísuðu evrópsk ríki einungis 96 flóttamönnum aftur til Grikklands á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af höfðu Svíar vísað flestum til baka, alls 35 flóttamönnum, en fram kemur að endursendingar frá Þýskalandi hafi verið átta talsins. Í svarinu sem Kjarninn fékk frá þýsku stofnuninni var þessara endursendinga ekki getið.
Á fundinum í gær benti Kári á að þessar tölur gæfu til kynna að íslenska kerfið væri ekki sérstaklega opið þegar kæmi að móttöku flóttafólks, eins og stundum mætti skynja á umræðunni.
Í síðustu viku sendu íslensk yfirvöld alls 15 einstaklinga á brott með leiguflugi aftur til Grikklands og ætluðu sér raunar að senda 28 manns, en 13 fundust ekki þegar lögreglumann reyndu að hafa uppi á þeim til flutnings af landi brott. Kári benti á að einungis þessi fjöldi myndi skjóta Íslandi upp í annað sæti yfir endursendingar til Grikklands á þessum lista.
Kári fékk einnig þá spurningu úr sal á fundinum, hvað þyrfti að gerast hérlendis til þess að íslensk yfirvöld myndu byrja að horfa á brottvísanir til Grikklands með sama hætti og þýsk yfirvöld hafa gert í kjölfar niðurstaðna dómstóla þar í landi.
Lektorinn svaraði því til að dómaframkvæmd í Evrópu væri bæði brotakennt og flókin, en benti svo á að hérlendis gæti þetta gerst með stefnubreytingu stjórnvalda varðandi framkvæmdina, eða þá með breyttu mati kærunefndar útlendingamála á stöðu mála í Grikklandi.
Síðan gætu mál af þessu tagi einnig komið til kasta dómstóla, sem gætu tekið „prinsipp-ákvarðanir“ sem hefðu fordæmisgefandi áhrif á þann veg að stöðva endursendingar til Grikklands, þó að Kári sjálfur teldi líklegra að hvert mál yrði skoðað fyrir sig.