Þýska fyrirtækið STEAG Power Minerals (SPM) hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Vikurinn yrði fluttur á bílum til Þorlákshafnar og í skip til Evrópu, og mögulega Norður-Ameríku, þar sem hann yrði notaður sem íblöndunarefni í framleiðslu á sementi.
SPM er hluti af þýsku STEAG-samsteypunni, einum stærsta orkuframleiðanda Þýskalands sem sérhæfir sig í kolaverum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Utan Þýskalands er fyrirtækið með starfsemi í Frakklandi, Tyrklandi, Kólumbíu og Filippseyjum.
SPM hefur stofnað fyrirtækið Power Minerals Iceland ehf. og festi það kaup á jörðinni Hjörleifshöfða ásamt Íslendingum. SPM á 90 prósent í jörðinni og Íslendingarnir 10 í gegnum félag sitt Lásastígur ehf. Leitin að hinum fullkomna vikri var löng og kannað var efni úr 31 námu, jafnt á Íslandi sem Azor-eyjum. „Til að gera langa sögu stutta þá er engin önnur vikurnáma í Evrópu sambærileg vikrinum í Háöldu á Mýrdalssandi,“ segir í tillögu að matsáætlun SPM. Þegar horft sé til gæða vikursins, þess magns sem sé til staðar og staðsetningu námunnar sé „fyrirhuguð vikurnáma á Mýrdalssandi algjörlega einstök og á engan sinn líkan í Evrópu“.
Vikurinn er gjall sem myndaðist í eldgosum í Kötlu og barst fram á Mýrdalssand í jökulhlaupi. Honum er ætlað að koma í stað kolaösku (e. coal fly ash) úr kolaverum sem notuð hefur verið sem íblöndunarefni í sement í áraraðir. „Með aukinni umhverfisvitund hefur kolaverum í Vestur-Evrópu fækkað mikið og framboð á kolaösku dregist saman,“ segir í tillögu að matsáætlun framkvæmdarinnar. „Í Þýskalandi er jafnframt stefnt að því að árið 2038 verði búið að loka öllum kolaverum. Í stað þess að útvega kolaösku annars staðar frá ætlar SPM sér að nota vikur til að bjóða viðskiptavinum sínum umhverfisvænt hráefni.“
Vinnslan yrði um milljón tonn á ári
Fyrirhugað efnistökusvæði er 15,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Í skýrslunni segir að jarðfræðirannsóknir bendi til að auðvinnanlegur vikur innan svæðisins sé um 146 milljónir rúmmetra (m3). Fyrirhugað er að taka 286 þúsund rúmmetra af efni fyrsta árið en að fimm árum liðnum verði búið að auka efnistökuna upp í 1,43 milljón rúmmetra, eina milljón tonna, á ári og er stefnt að því að halda þeim afköstum eftir það.
Einungis yrði unnið í litlum hluta framkvæmdasvæðisins hverju sinni. Teknir yrðu um átta metrar ofan af vikurlaginu og því yrði virkt efnistökusvæði á hverju ári um 20-40 hektarar, miðað við full afköst. Fyrirtækið telur að vikurlagið á Mýrdalssandi austan Hafurseyjar ætti að duga til efnistöku í rúmlega 100 ár.
Hugmyndir um vikurnám á þessu svæði eru ekki nýjar af nálinni og hefur efnistökusvæðið verið á gildandi aðalskipulagi Mýrdalshrepps í tæpa tvo áratugi. Árið 2002 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir vikurnám á sama svæði og lauk því ferli með því að Skipulagsstofnun heimilaði efnistökuna. Helsta breytingin frá þeim tíma er hins vegar sú að þá var gert ráð fyrir verksmiðju í Vík sem myndi vinna vikurinn áður en hann væri fluttur úr landi. Nú stendur til að flytja vikurinn óunninn beint út.
Farið verður í frekari rannsóknir á gróðri, dýralífi og fleiru við áframhaldandi mat á umhverfisáhrifum námuvinnslunnar en gera þarf frá grunni nýja skýrslu um samfélagsleg áhrif þar sem margt hefur breyst í því sambandi á undanförnum árum. Á Suðurlandi er nú miklu meiri ferðamennska, m.a. í óbyggðum svæðum Mýrdalshrepps. Til að mynda er vinsælt að ganga á Hafursey og virða fyrir sér landslagið sem jöklar og eldfjöll hafa mótað.
SPM áætlar að vinnslan skapi um 22 tímabundin störf á ýmsum stigum undirbúnings og 24 varanleg störf þegar hún hefst. Störfum muni svo fjölga upp í allt að 135 þegar starfsemin hefur náð fullum afköstum. Auk þess megi búast við afleiddum störfum.
„Fyrirhuguð framkvæmd er ekki flókin og í eðli sínu mjög einföld, gröfur moka upp vikri á vörubíla sem keyra til Þorlákshafnar þar sem vikurinn er settur um borð í skip,“ segir matsáætlun framkvæmdarinnar.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem hefur það hlutverk að gefa út starfsleyfi fyrir framkvæmd sem þessari, er m.a. fjallað sérstaklega um flutningana af Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar. „Þessi vegalengd hljómar eflaust stutt í eyrum þeirra erlendu aðila sem eru vanir hraðbrautum heima fyrir, en öðru máli gegnir með að leggja þessa flutninga á þá vegi sem hér eru til staðar.“ Leiðin liggi í gegnum mörg sveitarfélög og um þéttbýli þriggja. „Slíkir flutningar koma til með að valda ónæði og auka hættu á mengunarslysum.“
Heilbrigðiseftirlitið telur æskilegt að reiknað verði út kolefnisspor sem hlýst af þessum flutningi „fremur en að fjalla um kolefnisspor við rekstur hjúkrunarheimilis á Selfossi,“ líkt og gert er í tillögu að matsáætlun. Hvetur eftirlitið til þess að kannað verði hvort að hægt sé að fara með vikurinn styttri leið til skips, t.d. við Hjörleifshöfða.
Í svipaðan streng er tekið í athugasemdum Landverndar. Verkefnið sé kynnt sem „afar gagnlegt í baráttunni gegn hættulegum loftslagsbreytingum“ en að rökstuðningur sé ekki vel undirbyggður. Það komi á óvart að Landeyjarhöfn skuli ekki tiltekin sem valkostur fyrir útskipun því akstursleið þangað er mun styttri en til Þorlákshafnar.
„Þá verður ekki séð að raunveruleg verðmætasköpun á Íslandi verði mikil þó að auðlindin sé íslensk,“ segir ennfremur í athugasemdum Landverndar. „Erlendir aðilar eiga bæði verksmiðju og 90 prósent af landinu þannig að arður eigenda, auðlindarentan, mun leita úr landi. Þá bendir reynslan til þess að þau störf sem myndu skapast geti alveg eins fallið í skaut erlendra vinnumiðlunar og skili sér því illa inn í samfélagið. Það er því að mati Landverndar nauðsynlegt að greina samfélagsáhrif af mikilli vandvirkni til að koma megi í veg fyrir rangar ályktanir og í kjölfarið ranga niðurstöðu.
Landvernd telur að skjótvirkasta leiðin til að draga úr losun frá sementi sé að draga úr notkun þess með því að byggja minni mannvirki og leggja í hönnunarferli áherslu á að draga úr sementsnotkun sem og endurnýta gamla steypu sem íblöndunarefni.
Landvernd minnir svo á að Mýrdalur sé þekktur fyrir matvælaframleiðslu og náttúrufegurð sem dragi fjölda ferðamanna að árlega. Samtökin telja ástæðu til að óttast að fórnarkostnaður vegna áformaðrar vinnslu yrði mun meiri en hugsanlegur ávinningur.„Þegar öll kurl koma til grafar verða meiri hagsmunir og langtímahagsmunir að vega þyngra en samtímasjónarmið og minni hagsmunir.“