Félagið Heidelberg Cement Pozzolanic Materials ehf., sem er hluti af einum stærsta steypuframleiðanda heims, HeidelbergCement, hefur sótt um að fá úthlutað allnokkrum lóðum undir verksmiðju og tengda starfsemi í Þorlákshöfn. Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss tók jákvætt í beiðnina á fundi sínum í síðustu viku.
Heidelberg ráðgerir, samkvæmt erindi sem nýlega var sent til sveitarfélagsins, að framleiða íblöndunarefni í steypu, um 1 til 1,5 milljónir tonna á ári fyrst um sinn og flytja úr landi. Árleg velta starfseminnar er áætluð 10-15 milljarðar króna á ársgrundvelli og orkuþörfin er talin „svipuð og hjá lítilli stóriðju“. Störf við framleiðsluna eru sögð eiga að verða 60-80 talsins fyrsta kastið, en geti orðið enn fleiri með mögulegri stækkun verksmiðjunnar.
Stærsti eigandi HeidelbergCement er Þjóðverjinn Ludwig Merckle, sem er samkvæmt Forbes númer 504 á listanum yfir ríkustu menn heims í dag, en eignir hans eru sagðar nema 5,1 milljarði bandaríkjadala. HeidelbergCement er með starfsemi í yfir 60 löndum og voru starfsmenn félagsins á heimsvísu 53 þúsund talsins árið 2020.
HeidelbergCement er þátttakandi í íslenskum byggingariðnaði, en fyrirtækið er meirihlutaeigandi Hornsteins ehf., sem á fyrirtækin BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna.
Vilja að tekið verði „fast“ á umhverfisþáttum
Lóðirnar sem Heidelberg sótti um til sveitarfélagsins eru Hafnarvegur 3, 5 og 7, Austurbakki 1, 2, 3, 4 og 6, Hafnarbakki 14, 16 og 18 og Bakki 2, en samanlögð stærð þessara lóða nemur rúmlega 49 þúsund fermetrum, samkvæmt lóðatöflu vegna deiliskipulags hafnarsvæðisins í Þorlákshöfn.
Skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins samþykkti á fundi sínum sem fram fór síðasta fimmtudag að lóðunum yrði úthlutað til Heidelberg, en vísaði málinu áfram til umsagnar framkvæmda- og hafnarnefndar.
Í umsögn skipulags- og umhverfisnefndar segir að nefndin sé „sérstaklega áfram“ um að við breytingar á deiliskipulagi sem framundan eru „verði tekið fast á umhverfislegum þáttum“. Nefndin segir að það komi ekki til greina að haugsetning jarðefna verði utandyra, eða að mengun svo sem rykmengun, hljóðmengun eða önnur óþægindi stafi af starfseminni. Einnig segist nefndin telja mikilvægt að horft verði til getu innviða í Þorlákshöfn og nágrenni til að þjónusta starfsemina.
Sérstaklega segir nefndin mikilvægt að huga að umferðarmálum og hefur hún falið starfsmönnum sveitarfélagsins að kalla eftir áliti Vegagerðarinnar á umferðarmálum tengdu verkefninu og getu vegakerfisins, þar sem sérstaklega verði „kallað eftir yfirliti yfir nauðsynlegar breytingar svo sem á breikkun Þrengslavegar, gatnamótum við Þorlákshafnarveg og klifurrein við Skógarhlíðabrekku“.
Efnistaka úr námum á landi Kirkju sjöunda dags aðventista
Sagt var frá því í Morgunblaðinu undir lok marsmánaðar að námufyrirtækið Eden Mining kæmi að námuvinnslu vegna verkefnisins, en það félag hefur leigt námuréttindi í móbergsfjöllunum Litla-Sandfelli og Lambafelli af Kirkju sjöunda dags aðventista.
Í dag er þegar náma í í báðum fjöllum, en sú í Litla-Sandfelli hefur verið lítið notuð undanfarin ár. Það mun hinsvegar breytast ef áform Eden Mining ganga eftir, en eins og Kjarninn fjallaði nýlega um leggur félagið upp með að vinna 15 milljónir rúmmetra af jarðefni úr fjallinu, sem mun smám saman hverfa úr landslaginu gangi áformin eftir.