Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir það koma til greina að taka Úkraínu af lista yfir örugg ríki eftir að Rússar gerðu innrás í nótt.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, vakti athygli dómsmálaráðherra á málinu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og spurði hvort hann væri tilbúinn til þess að liðka fyrir komu úkraínsks almennings á flótta hingað til lands. „Getum við séð fyrir okkur að ríkisstjórnin stígi fram með það sem við höfum yfir að ráða, sem er ekki hervald heldur mannúð og skjól?“ spurði Helga Vala.
„Ja, það hlýtur að verða til endurskoðunar núna,“ svaraði dómsmálaráðherra, sem sagði það alveg rétt að mannúð og skjól eigi að vera aðalsmerki Íslands. „Við þurfum að axla okkar skyldur í þeim efnum eins og önnur ríki í Evrópu og víðar um heim. Nú blasir við okkur ný sviðsmynd, ný hætta og við hljótum að taka þátt í því, einmitt undir formerkjum mannúðar og skjóls sem Ísland getur veitt,“ sagði Jón.
„Þetta þarf að gerast strax í dag“
Hvort Úkraína fari af lista yfir örugg ríki er meðal þess sem verður til umræðu á fundi þjóðaröryggisráðs í dag. Jón segir að horft verði til aðgerða nágrannaríkja í þessum efnum. „Við þurfum alltaf að hafa það sem forgrunn, í þeim verkefnum sem við tökum að okkur, að við ráðum við þau með sómasamlegum hætti þannig að þeir sem hingað koma og við tökum undir okkar verndarvæng fái þá þjónustu sem við verðum að geta veitt til að þeir geti búið hér í okkar landi.“
Helga Vala fagnaði afdráttarlausri yfirlýsingu ráðherra og sagðist vænta þess að sjá birtingu þess efnis á heimasíðu ráðuneytisins eigi síðar en í dag.
„Annars getum við ekki tekið orð hæstvirst ráðherra trúanleg. Þetta þarf að gerast strax í dag. Úkraína er ekki öruggt ríki. Við sjáum það í heimsfréttum, við sjáum það í innlendum fréttum. Við verðum að bregðast við núna og veita fólki skjól,“ sagði Helga Vala á Alþingi í dag.