Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerir ráð fyrir því að tillaga um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka komi fram á Alþingi á næstu dögum. Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma sem nú er á Alþingi.
Á síðustu vikum hafa Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni allir tjáð sig um framlagningu þingsályktunartillögu um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Tillagan var lögð fram á síðasta þingi.
Sigmundur Davíð sagðist í upphafi árs búast við því að ný tillaga yrði lögð fram á vorþingi, Gunnar Bragi sagði að afstaða hans hafi ekki breyst frá því hann lagði tillöguna fram síðast og Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja tillöguna kæmi hún fram. Gunnar Bragi hefur þó sagt að mögulega verði gerðar einhverjar breytingar á tillögunni.
Nokkur þúsund manns mótmæltu nokkrar helgar í röð í febrúar og mars á síðasta ári í kjölfar þess að Gunnar Bragi lagði fram tillöguna þá. Málið vakti líka miklar deilur innan Sjálfstæðisflokksins þar sem margir lykilmenn voru því mótfallnir. Þeirra á meðal voru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður flokksins, og Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður hans.
Frumvarpið var lagt fram í kjölfar birtingar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir stjórnvöld um viðræðurnar. Samkvæmt henni voru verulega litlar líkur á því að Ísland geti fengið undanþágur frá grunnregluverki ESB. Skömmu síðar kom út skýrsla Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands sem sýndi allt aðra niðurstöðu og sagði að Ísland hefði þegar náð fram ýmis konar undanþágum.
Skipuleggjendur mótmælendanna og margir þátttakendanna í þeim töldu að stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefðu lofað því fyrir síðustu kosningar að slíta ekki viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðargreiðslu um málið.