Tillaga Lífar Magneudóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna, um að Reykjavíkurborg hætti með öllu að innheimta skólagjöld, var felld á fundi borgarráðs síðasta föstudag. Einungis fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarráði greiddi atkvæði með tillögunni, en fulltrúar nýja borgarstjórnar meirihlutans og Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn henni.
Líf lagði tillöguna fram á fundi borgarráðs 5. maí, en hún var ekki tekin til afgreiðslu fyrr en undir lok síðustu viku, á fyrsta fundi nýskipaðs borgarráðs. Líf, sem nú er orðin áheyrnarfulltrúi í borgarráði, lagði tillöguna fram á meðan að kosningabaráttunni stóð og það gagnrýndi Kolbrún Baldursdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði.
„Þessi tillaga Vinstri grænna er popúlísk tillaga og var sett fram korter fyrir kosningar. Betra væri að styrkja þá sem eiga erfitt með að greiða,“ sagði í bókun Kolbrúnar á fundi borgarráðs. Hún sagði það „að auki sérstakt að svona tillaga skuli koma frá fulltrúa flokks sem setið hefur í meirihluta í fjögur ár“.
Í bókun sinni um málið sagði Líf Magneudóttir að sannarlega hefðu leikskólagjöld í Reykjavík lækkað jafnt og þétt og væru með þeim lægstu í samanburði við önnur sveitarfélög, „þökk sé skýrri stefnu Vinstri grænna“.
„Það á hins vegar að stíga skrefið til fulls og afnema með öllu gjaldtöku fyrir grunnmenntun barna. Samfélagsleg og félagsleg áhrif þess að hætta að innheimta gjöld í menntakerfinu; leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum verða seint metin til fjár og eiga stjórnvöld ekki að mismuna börnum vegna tekna foreldra þeirra,“ sagði einnig í bókun Lífar um málið.
Markmiðið verðugt, segir meirihlutinn
Fulltrúar meirihlutaflokkanna fjögurra, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, bentu á að leikskólagjöld væru með allra lægsta móti í samanburði við önnur sveitarfélög og systkinaafslætir væru „afar ríflegir“ sem auðveldaði fjölskyldum í borginni að hafa börnin sín á leikskóla án mikils tilkostnaðar.
„Það er sannarlega verðugt markmið að leikskólar verði gjaldfrjálsir en til þess þarf að forgangsraða því fjármagni sem borgin hefur til leikskólamála með öðrum hætti,“ sagði í bókun meirihlutans.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu að setja ætti aðra hluti í forgang en að lækka gjöld á leikskóla borgarinnar. Í stað þess væri brýnt að bæta þjónustu þeirra. „Stytta þarf biðlista, brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og leysa þarf mönnunarvandann. Metnaður borgarinnar á að liggja í því að bjóða bestu leikskólaþjónustuna á sanngjörnu verði – ekki að tryggja ódýrustu leikskólana með verstu þjónustuna,“ sagði í bókun Hildar Björnsdóttur og Ragnhildar Öldu M. Vilhjálmsdóttur, sem sitja í borgarráði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Eina atkvæðið í borgarráði sem féll tillögunni í vil var svo sem áður segir frá fulltrúa Sósíalistaflokksins, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur. „Fulltrúi Sósíalista styður heilshugar þá tillögu að borgin hætti að innheimta leikskólagjöld. Öll menntun skal vera gjaldfrjáls,“ sagði í bókun hennar.
Fyrirsögn fréttarinnar var breytt: Áður sagði að tillaga Lífar hefði verið hríðfelld, en réttara er að segja að hún hafi verið kolfelld.