Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir tilvalið að næsta skref í sölu ríkisins í Íslandsbanka verði það að dreifa hlutum til almennings – heimilanna í landinu. Hún segir það „skandal“ að Vinstri græn og Framsókn hafi lagst gegn þessari hugmynd Sjálfstæðismanna.
Sigríður var gestur í Silfrinu á RÚV í morgun. Þar var síðasta útboðið í Íslandsbanka til umræðu.
Guðmundur Gunnarsson, fréttastjóri Markaðarins og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, sagði risastóra málið að Bankasýslan sitji enn á 400 milljörðum króna og nú væri búið að „setja stopp“ á frekari sölu á hlut ríkisins. „Innviðauppbygging víða um land er í hættu. Það er það sem að ég hef áhyggjur af, sem landsbyggðarmaður.“ Bankasalan hafi verið tækifæri til að fá fjármagn til að greiða upp þá „innviðaskuld“ sem skapast hefði í landinu. En af því verður ekki út af því „klúðri“ sem síðasta útboð var.
Sigríður sagðist taka undir þetta með Guðmundi en sagði annan „skandal“ einnig hafa komið upp. „Fjármálaráðherra lýsti því hvernig VG og Framsóknarflokkurinn lögðust gegn því, skutu þá hugmynd hans í kaf, að framkvæma þá hugmynd sem Sjálfstæðismenn hafa haft í áratugi, meðal annars ég, um að deila – dreifa – þessum hlutum í bönkunum til almennings í landinu. Þetta hefur VG og Framsóknarflokkurinn ekki viljað heyra minnst á.“
Hún sagði hins vegar tilvalið að taka það skref núna. „Að næsta ferli í að losa ríkið úr þessu eignarhaldi eigi að vera með þessum hætti. Að taka ákveðinn hluta af bankanum og dreifa þessu á heimilin í landinu og renna þannig styrkum stoðum undir öll heimili í landinu. Í kjölfarið svo að selja lokahlutinn.“
Þetta er að sögn Sigríðar leið sem Sjálfstæðismenn hafa viljað fara en hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá öðrum ríkisstjórnarflokkum.