Kosið verður til þings í Bretlandi eftir tæpan mánuð, þann 7. maí. Ljóst er að kosningarnar geta orðið sögulegar þar sem minni flokkar, sérstaklega UKIP og Skoski þjóðarflokkurinn, mælast með mun meira fylgi en þeir hafa nokkru sinni áður mælst með og allar líkur á að turnarnir tveir, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, nái hvorugur hreinum meirihluta. Nýjasta skoðannakönnun sem framkvæmd var í Bretlandi sýnir að Íhaldssflokkurinn mælist með 34 prósent fylgi en Verkamannaflokkurinn með 33 prósent.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, þótti auk þess standa sig best í kappræðum stjórnmálaleiðtoga í Bretlandi í síðustu viku, samkvæmt könnun YouGov. Hún þótti raunar standa sig svo vel að spurningin um hvort íbúar Englands gætu kosið Skoska þjóðarflokkinn (þeir geta það ekki, flokkurinn býður bara fram í kjördæmum í Skotlandi) var sjötta vinsælasta spurningin sem leitað var að svari við á Google kvöldið eftir kappræðurnar. Nigel Farage, hinn umdeildi leiðtogi UKIP, þótti næst bestur í kappræðunum.
Í tilefni þess að kosningabaráttan er komin á fullt þá tók The Guardian saman yfirlit yfir tíu bestu bresku kosningaauglýsingaspjöldin sem gerð hafa verið.
1966: You Know Labour Government Works
Auglýsingin er margslungin. Hún inniheldur ekki neinskonar kosningaloforð né er til þess fallin að ala á ótta um hvað gerist ef pólitískir andstæðingar Verkamannaflokksins komast til valda. En hugmyndin um að það hitti í mark að kjósa flokkinn vakti athygli.
1978: Labour Isn´t Working
Hugmyndin var augljóslega sú að benda á að Verkamannaflokkurinn skapaði ekki störf. Flokkurinn kallaði auglýsinguna frægu, sem auglýsingastofan Saatchi & Saatchi gerði, fölsun þar sem fólkið í röðinni var í raun ungir íhaldsmenn frá Hendon. Margaret Thatcher, þáverandi leiðtogi Íhaldsflokksins, hafnaði upphaldlega auglýsingunni á grundvelli þess að flokkur ætti aldrei að vera með nafn andstæðingsins á sinni eigin auglýsingu. Auk þess gæti tvíræðnin sem fram kemur í henni ekki verið neitt sérstaklega góð vegna þess að Thatcher sjálf sagðist ekkert botna í henni. Það varð allt vitlaust þegar auglýsingin birtist og Saatchis-stofan áætlaði að upphlaupið hafi skilað Íhaldsflokknum fríum birtingum sem metnar voru á um fimm milljónir punda. Íhaldið vann kosningarnar, og næstu þrjár sem fylgdu í kjölfarið, í góðu og nánu samstarfi við Saatchis & Saatchis.
1979: The Real Fight Is For Britain
Blaðamanni The Guardian fannst þessi auglýsing Frjálslyndra demókrata, sem oftast nær hafa verið í algjöru aukahlutverki í breskum stjórnmálum, svo dásamlega skrýtin að hún hlyti að eiga að heima á meðal þeirra bestu.
1984: If You Want Me Out, You Should Have the Right to Vote Me Out
Ken Livingstone varð síðar frægur út um allan heim fyrir að vera borgarstjóri í London. Fyrir rúmum 30 árum síðan var hann hins vegar að berjast fyrir því að borgarráð Lundúna yrði lagt niður með þessari áhrifaríku auglýsingu. Livingstone náði ekki markmiði sínu en auglýsingin færði staðbundið deilumál yfir á þjóðarvettvanginn.
1987: Labour’s Policy On Arms
Neil Kinnock, þáverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, gerði sjálfum sér mikinn afleik með því að leggja til í sjónvarpsviðtali í aðdraganda kosninganna að ef Sovétríkin myndu ráðast inn í Bretland þá ættu Bretar að berjast gegn innrásinni með skæruhernaði. Ummælin þóttu bera með sér mikið vantraust til breska hersins og urðu andlag margra vel heppnaðra árásarauglýsinga.
1992: Labour’s Tax Bombshell
Auglýsingin var gífurlega umdeild þar sem höfundar hennar reiknuðu út að ríkisútgjöld myndu aukast um 35 milljarða punda ef stefnuskrá Verkamannaflokksins yrði að veruleika og deildu þeirri upphæð í fjölda Breta. En Saatchi & Saatchi og Íhaldsflokknum var alveg sama.
1999: Bliar
Íhaldsmenn eru ekki vinsælir í Skotlandi og margir kannast við brandarann um að það séu fleiri pöndur í Skotlandi en Íhaldsmenn (pöndurnar eru tvær). Þeir hafa samt sem áður framleitt nokkrar eftirminnilegar auglýsingar, og þessi, sem hinn lítt þekkta auglýsingastofa Yellow M gerði, vakti athygli langt út fyrir landamæri Skotlands. Hún skilaði líka stærsta kosningasigri Íhaldsmanna fyrr og síðar í Skotlandi og gerði það að verkum að William Hague, þáverandi formaður Íhaldsflokksins, réð Yellow M til starfa fyrir kosningarnar 2001.
2001: Be Afraid. Be Very Afraid
Auglýsingin var hönnuð af Trevor Beattie, manninum sem gerði "Hello Boys" auglýsingarnar fyrir Wonderbra-brjóstarhaldaranna, og markaði ákveðin tímamót fyrir Verkamannaflokkinn í auglýsingagerð. Hann var allt í einu farinn að beita sömu meðölum í auglýsingagerð og dugað höfðu Íhaldsflokknum svo vel áratugina á undan. Og hann var að vinna. Auglýsingin sem sýndi William Hague með Thatcher-hár er sú eftirminnilegasta og þótti skapa réttu neikvæðu hughrifin í huga kjósenda sem vildu allt annað en nýjan Thatcher-tíma.
2005: The Day Tory Sums Add Up
Skilaboðin voru einföld, sá dagur sem reikningsdæmi Íhaldsmanna í ríkisfjármálum gengur upp þá munu svín fljúga. Auglýsingin olli á endanum meiri skaða en gagni fyrir Verkamannaflokkinn þar sem birtingu hennar fylgdu ásakanir um gyðingahatur, en bæði Michael Howard og Oliver Letwin, sem eru á auglýsingunni, eru gyðingar. Hún er eftirminnileg engu að síður.
2015: Vote Conservative
Þessi auglýsing skoskra íhaldsmanna þykir skara framúr það sem af er yfirstandandi kosningabaráttu. Henni er ætlað að sýna að atkvæði greitt Skoska þjóðarflokknum í Skotlandi sé atkvæði greitt mögulegri samsteypustjórn hans og Verkamannaflokksins. Og skilaboðunum er komið á framfærði án orða, með því að sýna Ed Miliband í brjóstvasa Alex Salmond, fyrrum leiðtoga Skoska þjóðarflokkins.