Alls eru tíu af nítján skipverjum á súrálsskipi sem kom til Reyðarfjarðar og lagði að Mjóeyrarhöfn með COVID-19.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Austurlandi.
Þar segir að skipstjóri hafi fyrir komu skipsins gert grein fyrir að sjö manns í áhöfn væru veikir. „Að fenginni einkennalýsingu og öðrum faraldursfræðilegum þáttum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni, sem náðist undir kvöld í gær. Af nítján skipverjum reyndust tíu vera með Covid-19. Aðgerðastjórn og umdæmislæknir sóttvarna í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann hafa gefið leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir um borð.“
Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Hefur svo verið frá komu skipsins til hafnar.