Fjölmiðillinn Business Insider tekur reglulega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag, að þeirra mati. Að minnsta kosti er ágætt að líta aðeins út fyrir Ísland og sjá hvað er að eiga sér stað annars staðar. Hér er því listi dagsins í dag.
- Íslamska ríkið réðist inn í sýrlensku borgina Palmyra í gær, en í borginni eru merkilegar fornminjar.
- Fimm stærstu bankar í heimi munu greiða tæplega 770 milljarða íslenskra króna í sektargreiðslur vegna aðilda að fjármálahneyksli, þegar þeir misnotuðu millibankavexti á gjaldeyrismarkaði.
- Bandaríkjamenn hafa sent þúsund eldflaugar til íraska hersins til að hjálpa þeim að berjast við hermenn Íslamska ríkisins til að ná aftur völdum í Ramadi.
- Bresk stjórnvöld greindu frá því í gær að fjöldi frægðarfólks og stjórnmálamanna séu meðal 1.400 grunaðra um aðild að stórfelldri kynferðislegri misnotkun á börnum.
- Bandaríska leyniþjónustan opinberaði í vikunni ýmis skjöl og hluti sem fundust í híbýlum Osama bin Laden í Pakistan. Meðal þess voru tölvuleikir og kennslubækur í ensku.
- Allt að 568 þúsund lítrar af olíu gætu hafa lekið í sjóinn við Kaliforníu eftir að rör brustu. Ríkisstjórinn í Kaliforníu hefur lýst yfir neyðarástandi vegna þess.
- Frakkar segjast hafa drepið tvo háttsetta menn í Al-Kaída hryðjuverkasamtökunum í norðvestur Afríku.
- Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sagði við BBC að Úkraína ætti í raunverulegu stríði við Rússa. Tveir rússneskir sérsveitarmenn sem voru teknir höndum í Úkraínu á dögunum eru nýjasta sönnun þess, að hans sögn.
- Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Kóreu hafa staðfest tvö tilfelli af MERS, öndunarfærasjúkdómi sem er kenndur við Miðausturlönd, en segja ekki hættu á að sjúkdómurinn breiðist frekar út.
- Loftpúðaframleiðandinn Takata í Japan ætlar að framleiða eina milljón loftpúða og skipta út fyrir gallaða. 34 milljónir bíla þurfti að innkalla vegna galla.