Fyrrverandi starfsmaður PWC á Akureyri og jafnframt einn hluthafa, Davíð Búi Halldórsson, var á fimmtudaginn dæmdur í Hæstarétti til þess að greiða PWC 2,6 milljónir króna vegna þess að hann stofnaði nýtt fyrirtæki í samkeppnisrekstri við PWC, og tók meðal annars með sér viðskiptasambönd sem áður tilheyrðu PWC. Auk þess var Davíð Búi dæmdur til þess að greiða PWC eina milljón í málskostnað vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti, en í Héraðsdómi Norðurlands eystra var hann dæmdur til þess að greiða PWC 1,8 milljónir, og var sá dómur staðfestur.
Forsaga málsins er sú að Davíð Búi sagði upp störfum hjá PWC 29. maí 2012 og stofnaði skömmu síðar fyrirtækið Enor, sem sinnir endurskoðunstörfum og ráðgjöf. Þrír aðrir starfsmenn PWC sögðu einnig upp störfum og ætluðu sér að starfa hjá hinu nýju fyrirtæki. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að margir fyrrverandi viðskiptavinir PWC á Akureyri séu nú viðskiptavinir Enor en strax í kjölfar uppsagnar Davíðs Búa blossuðu upp deilur um hvort löglega hefði verið staðið að málum, ekki síst í ljósi samningsákvæðis í ráðningsamningi Davíðs Búa við PWC sem tekur til samkeppnisrekstrar. Í því segir: „Ef hluthafi hættir störfum hjá félaginu en heldur áfram störfum á sama sviði og tekur með sér viðskiptamenn frá félaginu, innan þriggja ára frá útgöngu, eða verði uppvís að því að valda félaginu tjóni við útgöngu úr félaginu t.d. með því að beina viðskiptavinum þess til samkeppnisaðila, er hann skaðabótaskyldur gagnvart félaginu og getur félagið krafist bóta sem nema tekjum síðustu 12 mánaða vegna vinnu félagsins fyrir viðskiptamanninn.“
Í dómi Hæstaréttar segir að sannað þyki, meðal annars með vísan í fyrrnefnd orð í samningi, að Davíð Búi hafi tekið viðskiptavini frá PWC, og þannig verið bótaskyldur gagnvart PWC vegna þessa.