Fyrirtækið TIDAL HIFI, sem hefur aðsetur í Noregi, hyggst gera tónlistarveitu sína, TIDAL, aðgengilega á Íslandi innan tíðar.
TIDAL, sem er meðal annars stillt upp til höfuðs tónlistarstreymiveitna á borð við Spotify og Deezer, komst í heimsfréttirnar á dögunum þegar tónlistarmaðurinn Jay-Z og fleiri heimsfrægir tónlistarmenn efndu til skondins blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um kaup félaganna á tónlistarveitunni.
Yfirlýst markmið tónlistarmannanna með kaupunum er meðal annars að bjóða upp á þjónustu þar sem hlustandinn getur notið tónlistarinnar eins og tónlistarmennirnir ætluðu henni að hljóma. Sérstaða tónlistarveitunnar á sem sagt að vera að bjóða upp á tónlist í meiri gæðum en keppinautarnir.
Þjónusta TIDAL er nú þegar aðgengileg í 35 löndum víðs vegar um heiminn.