Traust á ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins hefur aldrei mælst minna en nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þriðjungur svarenda segist treysta ríkisstjórninni illa eða alls ekki til þess að takast á við efnahagslegu áhrifin. Hátt í helmingur svarenda, eða 48 prósent, segist treysta ríkisstjórninni vel eða fullkomlega í þessu tilliti en 19 prósent svarenda hvorki né.
Traust til ríkisstjórnarinnar eykst með hækkandi aldri en lítill munur er á afstöðu kynjanna. Þriðjungur svarenda yngri en 30 ára segjast treysta ríkisstjórninni vel til þess að takast á við efnahagsleg áhrif faraldursins. Í næsta aldursflokki fyrir ofan, hjá þeim sem eru 30-39 ára mælist traustið 37 prósent. Traustið er komið upp í 49 prósent hjá þeim sem eru 40-49 ára og hjá þeim sem eru 50-59 ára mælist traustið 55 prósent. Traustið mælist mest hjá elsta aldurshópnum en 58 prósent svarenda sem eru 60 ára eða eldri segjast treysta ríkisstjórninni til þess að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins treysta ríkisstjórninni afgerandi best til þess að takast á við efnahagslegu áhrifin eða 92 prósent. Meirihluti kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna treysta stjórninni til að takast á við verkefnið, 74 prósent kjósenda Vinstri grænna treysta stjórninni vel til þess og 70 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Minnst mælist traustið hjá kjósendum Pírata, 15 prósent kjósenda flokksins treysta stjórninni en 62 prósent treysta henni illa.
Kvíði vegna faraldursins aldrei minni
Á dögunum sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali við Vísi að allt benti til þess að hér hafi hjarðónæmi verið náð og að Íslendingar gætu hrósað happi yfir stöðunni. Samkvæmt upplýsingum á covid.is stendur nýgengni innanlandssmita í 219,5 á hverja 100 þúsund íbúa en það hefur lækkað í hverri viku frá því í febrúar þegar nýgengi fór yfir 10 þúsund.
Allt bendir til því þess að þjóðin sé að sigla hægt og rólega út úr faraldrinum. Fréttaflutningur af faraldrinum gefur það einnig til kynna en dregið hefur úr umfjöllun um hann á síðustu vikum. Mælingar á kvíða landsmanna yfir faraldrinum endurspegla þessa þróun en hann hefur aldrei mælst jafn lítill. Nú segjast þrír af hverjum fjórum finna fyrir litlum eða engum kvíða yfir faraldrinum. Í Þjóðarpúlsi Gallup frá því í janúar sögðust rétt rúmlega helmingur svarenda finna fyrir litlum eða engum kvíða vegna faraldursins.
Á síðustu mánuðum hafa áhyggjur fólks af því að smitast af COVID-19 einnig minnkað. Nú segjast 58 prósent svarenda óttast það frekar lítið eða mjög lítið að smitast. Einungis einu sinni áður hefur þetta hlutfall mælst hærra en það var í júlí í fyrra þegar 68 prósent sögðust óttast smit lítið eða mjög lítið.
Könnunin var framkvæmd þann 28. apríl til 8. maí. Í úrtaki könnunarinnar voru 1654 einstaklingar sem valdir voru úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svaenda var 854 og þátttökuhlutfall því 51,6 prósent.