Morðið á Ahmaud Arbery var hatursglæpur. Þetta er niðurstaða kviðdóms sem fékk það hlutverk að skera úr um það hvort að þrír hvítir karlar hafi elt og skotið Arbery, svartan ungan mann, til bana vegna litarháttar hans. Þeir hafa þegar verið sakfelldir fyrir að drepa hann og hlotið lífstíðarfangelsisdóm fyrir. En alríkisyfirvöld í Bandaríkjunum vildu einnig fá morðingjana dæmda fyrir hatursglæp – að þeir hafi „trúað öllu illu“ upp á unga manninn sem varð á vegi þeirra, út af því einu að hann var svartur á hörund. Verjendur mannanna þriggja, þeirra Travis McMichael, Gregory McMichael og William Bryan sögðu þá hafa talið sig bera kennsl á Arbery af upptöku úr öryggismyndavél og héldu hann hafa borið ábyrgð á innbroti.
Kviðdómur í nýjum réttarhöldum yfir þremenningunum kvað upp niðurstöður sína í dag: Morðið var hatursglæpur. Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi síðdegis að Arbery hefði verið „sigtaður út, eltur, skotinn og drepinn“ á meðan hann var að skokka á almannafæri. Hann sagði „rasisma“ verið undirrótina. Enginn í Bandaríkjunum ætti að þurfa að óttast um líf sitt þegar farið væri út að hlaupa, enginn ætti að eiga á hættu að verða „sigtaður út og drepinn vegna húðlitar síns“.
Morðið á Arbery vakti ekki mikla athygli þegar það var framið í febrúar árið 2020. „Sjálfsvörn,“ sögðu feðgarnir sem höfðu elt hann og skotið. „Hann var úti að skokka,“ sagði móðir hans. Skýrsla var tekin af feðgunum og nágranna þeirra sem tók þátt í eltingarleiknum, „veiðunum“ eins og sumir hafa kallað það sem átti sér stað. Þeir sögðust hafa grunað unga manninn um innbrot og því elt hann. Hann hafi svo ráðist á anna þeirra. Sem sagt: Tveimur skotum var hleypt af í sjálfsvörn.
Þetta var tekið gott og gilt af lögreglunni í smábænum Brunswick í Georgíu-ríki. Gregory McMichael var enda fyrrverandi lögreglumaður.
Það var ekki fyrr en sjötíu dögum síðar, eftir að myndband af árásinni var birt opinberlega, að í ljós kom að atburðarásin var allt önnur en þremenningarnir höfðu lýst.
Það var áður en George Floyd var myrtur af lögreglumanni í Minnesota, áður en Black Lives Matter-hreyfingin hóf stöðug mótmæli. En í þeim var morðið á Arbery eitt margra sem haldið var á lofti sem dæmi um það kerfisbundna misrétti sem svartir Bandaríkjamenn verða fyrir af hálfu yfirvalda í landi sínu.
Þremenningarnir voru dæmdir fyrir morðið á hinum 25 ára gamla Arbery í nóvember síðastliðnum. McMichaels-feðgarnir fengu lífstíðarfangelsisdóm án möguleika á reynslulausn. Bryan fékk einnig lífstíðardóm en getur sótt um reynsluslausn eftir þrjá áratugi. Hann er 52 ára gamall.
Í lokaræðu sinni við réttarhöldin í gær, mánudag, sagði ákæruvaldið að ekkert annað hafi legið að baki morðinu en kynþáttafordómar. „Þeir voru drifnir áfram af kynþáttahatri,“ sagði einn saksóknaranna, Christopher Perras. „Þeir sáu svartan mann í hverfinu sínu og huguðu þegar það versta.“
Pete Theodocion, verjandi Bryans, sagði að sannanir fyrir rasisma væru „aðeins óbeinar“. Hann ítrekaði að mennirnir hefðu talið sig þekkja Arbery af upptöku úr öryggismyndavél og hefðu verið að verja hverfið sitt.
En ákæruvaldið lagði fram ýmis sönnunargögn máli sínu til stuðnings sem sýndu kynþáttafordóma mannanna. Meðal gagna voru færslur þeirra af samfélagsmiðlum mánuðina og árin áður en þeir frömdu morðið.
Árið 2018 skrifaði Travis McMichael t.d. við myndband af svörtum manni: „Ég myndi drepa þennan fjandans negra“. Og árum saman hefur Bryan skrifað níð á degi Martins Luther King.
Í réttarhöldunum voru þremenningarnir ásakaðir um hatursglæp og að hafa brotið á mannréttindum Arbery. Þeir hafa nú verið fundnir sekir og gætu átt annan lífstíðardóm yfir höfði sér.
„Ég get ekki ímyndað mér þjáningu móður hans,“ sagði Garland dómsmálaráðherra. „En Ahmaud Arbery ætti að vera á lífi. Ég samhryggist aðstandendum hans.“