Um 39 þúsund laxar, líklega samtals um 180 tonn, sluppu úr sjókvíum fyrirtækisins Midt-Norsk Havbruk AS við eyjuna Dolma í Þrændalögum í ágúst. Um leið og atvikið uppgötvaðist var hafist handa við að reyna að fanga laxana en það skilaði litlu og fékk fyrirtækið framlengdan frest yfirvalda til verksins. Nú er hins vegar ljóst að aðeins hefur tekist að ná rúmlega 13.200 löxum eða um þriðjungi þeirra sem sluppu.
Laxarnir hafa dreifst um stórt svæði, synt norður á bóginn og „leitarsvæðið“ því verið stækkað enda þekkja fiskar engin sýslumörk frekar en önnur dýr.
Laxeldisfyrirtækið tilkynnti norsku Fiskistofunni um málið þann 27. ágúst er stórt gat á einni sjókvínni uppgötvaðist í kjölfar vonskuveðurs. Um 140 þúsund laxar voru í kvínni. Midt-Norsk Havbruk ASer dótturfélag NTS ASA, félags sem á, að því er fram kom í Fréttablaðinu í sumar, 55 prósent í Fiskeldi Austfjarða.
„Ógnvekjandi“
Yfirvöld í Nordland-fylki segja að laxana megi finna í miklum mæli allt frá Þrændalögum til Rana í norðri og og í öllum fjörðum á þeim slóðum. Þá hafa margir þeirra sést í vatnsföllum og árósum. Í mynni Loms-árinnar í Velfirði hafa til að mynda um 700 eldislaxar verið veiddir.
„Tilkynningar frá stórum hluta Hálogalands [svæðis í nyrsta hluta Nordland-fylkis] benda til að sleppingin sé sú alvarlegasta í sögu fylkisins,“ er haft eftir Tore Vatne, yfirmanni umhverfis- og loftslagssviðs Nordlands í tilkynningu frá yfirvöldum. „Fjöldi laxa sem sluppu er ógnvekjandi.“
„Fordæmalausar“ heimildir
Eftir fyrstu viku október hafði tekist að veiða 13.251 lax. Að meðaltali má áætla að hver lax sé 4,5 kíló og hafa því um 60 þúsund kíló af eldislaxi verið veidd með þessum hætti. Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að það sé fjórum sinnum meira magn en veiðimenn afla í öllum laxveiðiám í Nordland-fylki árlega. Til að draga úr neikvæðum áhrifum á villta laxastofna telja yfirvöld, að sögn Vatne, nú rétt að veita „fordæmalausa“ heimild til veiða á eldislaxi. „Þetta getur því miður leitt til einhvers meðafla af villtum laxi og sjóbirtingi en við teljum engu að síður að þetta sé rétt í þeim ákaflega óvenjulegu aðstæðum sem hafa skapast í Hálogalandi.“
Allir sem vettlingi geta valdið geta lagt hönd á plóg í þeim efnum. Veiða má, á ákveðnum svæðum í sjó, með veiðistöngum, línum, margvíslegum netum með ákveðinni möskvastærð og fleiri aðferðum. Áður en haldið er til veiða þarf þó að tryggja leyfi landeigenda, benda yfirvöld á. Ekki má veiða í 100 metra radíus frá sjókvíum en á þeim slóðum hafa eldisfyrirtækin ein slíka heimild. Tilkynna skal yfirvöldum um allan veiddan afla, hvort sem um er að ræða eldislax, villtan lax, sjóbirting, þorsk eða aðrar tegundir.
Eftir að laxarnir sluppu greiddi laxeldisfyrirtækið, Midt-Norsk Havbruk AS, fyrir veiðar á þeim. Fyrir hvern veiddan lax fengust 250 norskar krónur, um 3.800 íslenskar. En þann 3. október ákváðu forsvarsmenn þess að hætta því. Norska Fiskistofan hefur fyrirskipað fyrirtækinu að fanga eldislaxana í ám á svæðinu en telur sig ekki hafa vald til að krefjast þess að fyrirtækið geri slíkt hið sama á hafi úti. Fyrirtækið skal hins vegar vakta að minnsta kosti sautján ár, allt fram á næsta ár, og bæði veiða og skrásetja eldislaxa í þeim.
Laxarnir eru stórskaðaðir vegna laxalúsar. Á þeim mörgum eru djúp sár í hnakka sem lúsin hefur étið. Ekki er útilokað að þeir leyti af þeim sökum upp í ferskvatnsárnar til að draga úr sársauka sem þeir finna fyrir vegna áverkanna í söltum sjó.
Vatne bendir á að ítrekað hafi verið sýnt fram á að hrygning eldislaxa í norskum ám sé alvarleg ógn við villta laxastofna og að aukin hætta á erfðablöndun sé við stofna sem séu þegar veikir fyrir.