Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru stærstu framboðin í Reykjavík samkvæmt kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði, eftir að niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunnar HÍ er reiknuð með. Samfylkingin reiknast með 28,6 prósenta fylgi en Sjálfstæðisflokkur með 27,0 prósent. Framboðin fengju fimm fulltrúa í borgarstjórn hvort. Munurinn á fylgi framboðanna er þó enn innan vikmarka, svo ekki er hægt að segja með fullri vissu hvort stjórnmálaaflið sé vinsælla í Reykjavík.
Fylgi framboða til borgarstjórnar í Reykjavik
Samkvæmt nýjustu kosningaspá, gerðri 9. maí 2014
[visualizer id="4609"]
Könnunin sýnir að flokkarnir tveir eru að sækja í sig veðrið á kosnað annarra framboða, sérstaklega Bjartar framtíðar sem tapar manni til Sjálfstæðisflokksins á þeirri rúmu viku sem liðin er síðan kosningaspáin var síðast reiknuð. Meirihluti Bjartar framtíðar (áður Besta flokksins) og Samfylkingarinnar veltur aðeins á einum fulltrúa verði þetta niðurstaða kosninganna 31. maí.
Vinstri græn tapa einnig fylgi. Í síðustu kosningaspá mældist framboð þeirra með 8,3 prósent fylgi en er nú með 7,1 prósent. Það litla sem Framsóknarflokkurinn bætir við sig er langt innan við vikmörk útreikninganna. Það sama á við um Pírata sem virðist þó tapa örlitlu fylgi síðan 1. maí. Vinstri græn og Píratar fengju enn bæði einn fulltrúa yrði þetta niðurstaða kosninganna.
Þróun a fylgi flokka í Reykjavík
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 9. maí 2014
[visualizer id="4616"]
Röðun fulltrúa er áhugaverð fyrir þær sakir að fimmti maður Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir, er nú fimmtándi og síðasti fulltrúinn inn í borgarstjórn á undan fjórða fulltrúa Bjartar framtíðar. Skúli Helgason, fimmti maður á lista Samfylkingarinnar, er fjórtándi inn. Alls komast 15 fulltrúar að en kosningaspáin reiknar röð efstu 20. Á lista þeirra fimm sem næstir eru inn er áhugavert að sjá að eini fulltrúi Framsóknarflokksins sem kemst á topp 20 fellur um eitt sæti samkvæmt spánni, úr átjánda í nítjánda. Sjötti fulltrúi Samfylkingarinnar er nú líklegri til að ná kjöri en oddviti Framsóknar.
Röðun fulltrúa samkvæmt nýjustu spá
[visualizer id="4611"]
Könnun Félagsvísindastofnunnar birtist í Morgunblaðinu í dag en þar mældust báðir flokkarnir með fimm manns. Samfylkingin mældist þar með rúmlega þriggja prósentustiga forskot á Sjálfstæðisflokkinn.