Tveimur blaðamönnum á ristjórn DV var sagt upp störfum í dag. Annar þeirra er Hjálmar Friðriksson, sem segir í samtali við Kjarnann að sér hafi verið tilkynnt við uppsögnina að hans fyrri fréttaskrif samræmist ekki nýrri ritstjórnarstefnu DV. Þetta hafi Hallgrímur Thorsteinsson ritstjóri DV tjáð honum á fundi þeirra í dag. Sem dæmi um nýleg fréttaskrif Hjálmars fyrir DV má nefna umfjöllun hans um byssumálið svokallaða.
Hallgrímur Thorsteinsson segir DV ekki hafa tekið upp nýja fréttastefnu, en vissulega komi inn nýjar áherslur með nýjum ritstjóra. Hallgrímur segir uppsagnirnar í dag tengjast hagræðingaraðgerðum DV, þar sem ákveðið hafi verið að skera niður launakostnað blaðsins um fimmtán prósent. Aðgerðirnar einskorðist ekki við starfsmenn á ritstjórn DV og engar frekari uppsagnir hjá DV séu í farvatninu. Launakostnaður blaðsins hafi óumflýjanlega lækkað við brotthvarf starfsfólks í kjölfar yfirtöku nýrra eigenda að blaðinu.
"Þessar uppsagnir í dag eru liður í því að bregðast við taprekstri blaðsins á undanförnum árum, og færa reksturinn meira í átt að tekjunum. Blaðið myndi ekki ganga mikið lengur að óbreyttu," segir Hallgrímur í samtali við Kjarnann.