Landsbankinn og Íslandsbanki hafa báðir hækkað vexti af óverðtryggðum íbúðalánum í kjölfar stýrivaxtarhækkunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku. Þá voru stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentustig upp í 5,5 prósent.
Breytilegir vextir á óverðtryggðum grunnlánum til íbúðarkaupa (allt að 70 prósent af kaupverði) hjá Landsbankanum, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hækka til jafns við stýrivaxtahækkunina og verða sjö prósent. Þurfi fólk hærra hlutfall að láni eru vextirnir enn hærri.
Íslandsbanki hækkar sömuleiðis breytilega óverðtryggða vexti af grunnlánum um 0,75 prósentustig.
Arion banki hefur, enn sem komið er, ekki tilkynnt um vaxtahækkun en viðbúið að það verði gert á næstu dögum.
Lífeyrissjóðirnir líka að hækka
Stjórn lífeyrissjóðs verzlunarmanna ákvað á fundi sínum í síðustu viku að hækka vexti á óverðtryggðum breytilegum íbúðalánum úr 5,73 í 6,56 prósent, eða um 0,83 prósentustig. Breytingin tekur gildi 1. október næstkomandi. Um er að ræða lán fyrir 70 prósent af kaupverði sem að hámarki mega vera 75 milljónir króna.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) tilkynnti svo í gær að óverðtryggðir vextir hans myndu hækka úr 6,95 í 7,55 prósent, en þar er um að ræða fasta vexti til þriggja ára. LSR býður ekki upp á breytilega vexti.
Gildi, sem er líka stórtækur í íbúðalánum, hefur ekki tilkynnt um vaxtahækkun enn sem komið er.
Fólk flykktist í breytilega óverðtryggða vexti
Hlutfall lána sem er á breytilegum vöxtum hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, en kjör á þeim urðu um tíma mjög skapleg eftir að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti niður í 0,75 prósent á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð. Aðsókn í óverðtryggð lán, sem fela í sér hærri greiðslubyrði en hraðari niðurgreiðslu á höfuðstól, jókst í þessu ástandi. Hlutfall þeirra af öllu útlánum til íbúðarkaupa var 15 prósent um mitt ár 2016 og 27,5 prósent í byrjun árs 2020 en er nú komið í 56 prósent.
Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú yfir 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020. Á þessu tímabili hafa bankarnir hagnast um tugi milljarða króna og undanfarið hefur vaxtamunur þeirra farið hækkandi.
Stýrivextir hafa hækkað um 4,75 prósentustig frá því í maí í fyrra vegna viðleitni Seðlabankans til að stemma stigu við sífellt aukinni verðbólgu, en hún mælist nú um 9,9 prósent. Bankinn spáir því að verðbólgan fari í 10,8 prósent fyrir lok árs. Helsti drifkraftur hennar hefur verið hækkandi íbúðaverð.
Íbúðamarkaður farinn að kólna
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1 prósent milli mánaða, samkvæmt nýbirtri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það er mun minni hækkun milli mánaða en hefur mælst milli mánaða í nokkuð langan tíma og því ljóst að aðgerðir Seðlabankans til að draga úr vilja og getu til lántöku eru að hafa áhrif.
Íbúðaverð á svæðinu hefur hækkað um 15,5 prósent síðustu sex mánuði og 25,5 prósent síðasta árið. Ef horft er aftur til upphafs kórónuveirufaraldursins, sem hófst af alvöru hérlendis í mars 2020, þá hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 48 prósent.
Athyglisvert er að frá sumrinu 2020 hefur verðbil á íbúðum aukist þannig að dýrar íbúðir virðast hafa hækkað meira í verði en ódýrar, samkvæmt samantekt HMS.
Stóraukin greiðslubyrði heimila
Greiðslubyrði húsnæðislána lækkaði skarpt þegar Seðlabankinn hóf að lækka stýrivexti í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Strax um síðustu áramót, þegar stýrivextir voru tvö prósent, var greiðslubyrði íbúðalána á höfuðborgarsvæðinu þó orðin svipuð og hún var fyrir faraldurinn vegna vaxta- og verðhækkana á íbúðamarkaði. Síðan þá hafa stýrivextir verið hækkaðir um 3,5 prósentustig og greiðslubyrði lána stóraukist samhliða.
Í fréttum RÚV í síðustu viku kom fram að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með breytilega vexti hefði aukist um ríflega hundrað þúsund krónur á mánuði, miðað við 50 milljón króna lán sem tekið var í byrjun árs 2021 á þeim 3,4 prósent vöxtum sem buðust þá.
Greiðslubyrði slíks láns var í upphafi um 190 þúsund krónur en er nú 290 þúsund krónur. Þá á eftir að taka inn áhrif þeirra vaxtahækkana sem tilgreindar eru hér að ofan, og ákveðnar voru eftir síðustu stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands.
Á ársgrundvelli er greiðslubyrði slíks láns því að hækka um meira en 1,2 milljónir króna á ári.