Tveir starfsmenn DV, sem sögðu upp störfum hjá miðlinum fyrir helgi, hafa ráðið sig til 365 miðla, samkvæmt heimildum Kjarnans. Um er að ræða Viktoríu Hermannsdóttur, sem mun starfa á innblaði Fréttablaðsins, og Aðalstein Kjartansson, sem mun starfa á vefnum Vísi.is. Heimildir Kjarnans herma að mögulega séu fleiri starfsmenn DV á leiðinni yfir til 365 miðla.
Miklar hræringar hafa verið innan DV undanfarnar vikur vegna átaka í eigendahópi útgáfufélags DV. Síðastliðinn föstudag náði hópur undir forystu Þorsteins Guðnasonar meirihluta í félaginu og ný stjórn skipuð í kjölfarið. Þau Viktoría og Aðalsteinn sögðu í kjölfarið upp störfum sínum á DV. Uppsagnarbréfið skrifuðu þau á servíettur og afhentu Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra DV.
Sú stjórn fundaði um helgina og ákvað að setja Reyni Traustason, ritstjóra og einn aðaleiganda DV, í tímabundið leyfi. Hann má ekki hafa afskipti af fréttum né mæta á starfsstöð á meðan að leyfið stendur yfir. Fastlega er búist við því að Reynir verði rekinn á næstunni. Hallgrímur Thorsteinsson var ráðinn ritstjóri DV í stað Reynis.
Hallgrímur og Þorsteinn funduðu með starfsfólki DV í morgun. Mikill hiti var í starfsmönnum DV á fundinum og þeir ósáttir með brottrekstur Reynis. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, aðstoðarritstjóri DV, sagði í samtali við RÚV að DV myndi að öllum líkindum ekki koma út á morgun. Enginn blaðamaður myndi hefja störf fyrr en hann hefði fengið svör við ýmsum ósvöruðum spurningum ritstjórnarinnar.
Mikil uppstokkun hefur átt sér stað innan 365 miðla að undanförnu. Mikael Torfason aðalritstjóri hefur verið rekinn og Ólafur Stephensen ritstjóri sagt upp störfum. Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365 miðla, tók í kjölfarið að sér starf aðalritstjóra og Sigurjón M. Egilsson, útvarpsmaður og ritstjóri www.midjan.is, var ráðinn sem fréttaritstjóri.