Bæði matvælaráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið hafa það sem af er ári ekki birt upplýsingar úr málaskrám sínum eins og kveðið er á um að ráðuneyti skuli gera samkvæmt upplýsingalögum.
Í báðum tilfellum er ástæðan fjölgun ráðuneyta og uppstokkun málaflokka innan stjórnarráðsins, samkvæmt svörum ráðuneytanna til Kjarnans, en unnið er að því að koma birtingunni af stað.
Frá því að breytingar á upplýsingalögum tóku gildi í fyrra hefur ráðuneytum verið skylt að birta upplýsingar úr málaskrám sínum með rafrænum hætti. Að lágmarki skulu ráðuneytin birta skrá yfir mál sem eru til meðferðar í ráðuneytinu í tilefni af innsendum eða útsendum erindum, þar sem tilgreind eru bæði málsnúmer og heiti máls.
Þessar breytingar voru gerðar á upplýsingalögum í því skyni að „auka upplýsingafrelsi og gagnsæi í stjórnsýslunni“ sagði í tilkynningu stjórnvalda er vakin var athygli á því að birting þessara upplýsinga væri hafin í mars í fyrra.
Þá var sett upp sérstök síða á vef stjórnarráðsins, þar sem hægt hefur verið að nálgast Excel-skjöl með upplýsingum úr málaskrám ráðuneyta allar götur síðan. Upplýsingarnar eru birtar með eins til tveggja mánaða töf, þannig að núna í júlí hafa nýjustu upplýsingarnar úr málaskránum sem birtar eru á vef stjórnarráðsins verið frá því í maí.
Unnið að sameiningu málaskráa og nýjum verkferlum
Sem áður segir er hins vegar ekki hægt að sjá neinar upplýsingar úr málaskrám tveggja ráðuneyta það sem af er ári, og það á sínar skýringar.
Í svari frá matvælaráðuneytinu segir að þegar ráðuneytið tók til starfa 1. febrúar síðastliðinn hafi hafist „umfangsmikil vinna við sameiningu málaskráa af málefnasviðum fyrrum ráðuneyta“ og að nú sjái fyrir endann á þeirri vinnu. Því styttist í „að hægt verði að gera upplýsingar úr málaskránni aðgengilegar á vef stjórnarráðsins“.
Í svari frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu segir að eftir breytingarnar sem gerðar voru á ráðuneytunum hafi verið unnið að því að búa til nýja vinnuferla. Til standi að birta þær upplýsingar sem standa út af um eða eftir mánaðarmót, er upplýsingafulltrúi ráðuneytisins snúi aftur úr sumarfríi.
Kjarninn sendi forsætisráðuneytinu einnig fyrirspurn vegna þessa, en ráðuneytið annast framkvæmd upplýsingalaga og er það í höndum forsætisráðherra hvernig birtingu upplýsinga frá ráðuneytunum skal háttað, þar með talið hvar og hvernig upplýsingar skuli birtar, eins og nánar er farið yfir í reglugerð um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir setti árið 2018.
Frá forsætisráðuneytinu höfðu hins vegar ekki svör er þessi frétt birtist, fyrir utan sjálfvirkt svar um að tölvupóstur blaðamanns hafi verið móttekinn.
Með því staðlaða svari fylgir eftirfarandi klausa: „Athygli er vakin á að skv. 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skylt að birta upplýsingar úr málaskrám sínum með rafrænum hætti.“