Uhunoma Osayomore, ungur karlmaður sem flúði ofbeldi og ofsóknir í Nígeríu hingað til lands, fékk íslenskan ríkisborgararétt í nótt. Uhunoma er í hópi tólf einstaklinga sem fengu ríkisborgararétt er frumvarp þess efnis var afgreitt á Alþingi. Um 46 þúsund undirskriftum var safnað er vísa átti honum frá Íslandi á síðasta ári.
Uhunoma er fæddur árið 1999 í Nígeríu. Árið 2016, er hann var aðeins sextán ára að aldri, flúði hann heimili sitt eftir að faðir hans hafði myrt móður hans og yngsta systir hans lést af slysförum.
Þetta var þó aðeins byrjunin á þjáningum stráðri leit unga mannsins að friði og skjóli. Fyrsti viðkomustaður hans á flóttanum var Lagos, höfuðborgar landsins, og lenti þar í höndum þrælasala sem seldu hann mansali og upphófst þar með hræðilegt ferðalag sem leiddi hann til Íslands í október 2019.
Á leiðinni upplifði hann hryllilega hluti, varð vitni að morðum, var haldið föngnum í fjárhúsi og varð ítrekað fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í þrjú ár bjó hann í flóttamannaíbúðum á Ítalíu.
Uhunoma er í skýjunum og trúir þessu varla
Hann hóf ferðalagið sem barn en endaði á Íslandi sem einstæður fullorðinn maður, sögðu vinir hans sem stóðu að undirskriftasöfnuninni fyrir hann í fyrra.
Eftir komu hans til Íslands árið 2019 hófst það ferli að sækja hér um vernd. Á það féllust yfirvöld ekki og varð Uhunoma fyrir gríðarlegu áfalli er kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um vernd á síðasta ári. Hann lýsti líðan sinni í viðtali við Vísi skömmu síðar, eftir að hafa verið lagður inn á bráðageðdeild er hann fékk fréttirnar.
Nefndin hafði hins vegar fallist á endurupptöku máls hans og nú – rúmu ári síðan – er hann ekki aðeins kominn með vernd heldur orðinn íslenskur ríkisborgari.
Í viðtalinu við Vísi lýsti hann t.d. því ofbeldi sem faðir hans hafði beitt hann. „Þegar ég fór að gráta sagðist hann ætla að hætta að berja mig,“ sagði Uhunoma. „En hann hætti aldrei.“
Örin eftir barsmíðarnar eru um allan líkama minn, sagði hann ennfremur.
„Eftir nokkura ára baráttu, rekstur dómsmáls, framlagningar fjölda endurupptökubeiðna til kærunefndar útlendingamála og söfnunar um 50.000 undirskrifta í einni stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar hefur Uhunoma fengið varanlegt skjól og áður óþekkt öryggi í sínu lífi,“ skrifar Magnús D. Norðdahl, lögmaður hans, á Facebook-síðu sína. „Hann öðlaðist í nótt íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli laga frá Alþingi og getur um frjálst höfuð strokið. Réttlætið sigrar stundum.“
Magnús bætir við í samtali við Kjarnann að Uhunoma ætti enn erfitt með að trúa þessum góðum fréttum en að hann væri í skýjunum yfir þeim.