Úkraína var tekin af lista yfir örugg ríki í morgun eftir að fregnir bárust um innrás Rússa. Ákvörðunin var tekin af Útlendingastofnun, sem lögum samkvæmt ber á byrgð á lista öruggra upprunaríkja.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í tilefni af umræðum sem fram fóru á Alþingi í morgun.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hvort Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væri reiðubúinn að taka Úkraínu þegar í stað af lista yfir svokölluð örugg ríki. Sagði ráðherra að það hlyti að verða tekið til endurskoðunar eftir að Rússa gerðu innrás í Úkraínu í nótt.
Fram kemur í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins að upplýsingar um að Úkraína sé talin öruggt upprunaríki voru teknar af heimasíðu Útlendingastofnunar strax í morgun í ljósi frétta næturinnar. Því var búið að taka Úkraínu af listanum þegar þingfundur hófst klukkan 10:30.
„Sérstök hernaðaraðgerð“ Rússa, líkt og Vladimír Pútín Rússlandsforseti orðar það, hófst í Úkraínu í nótt. Í sjónvarpsávarpi snemma í morgun sagði hann markmið sitt með innrás í Úkraínu vera að „aflétta hernaðaryfirráðum“ í landinu en ekki hernema það.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, flutti skýrslu fyrir Alþingi eftir hádegi þar sem hún fordæmdi harðlega innrás Rússa í Úkraínu. „Hér er um að ræða árásarstríð sem er skýrt brot á alþjóðalögum og á sér enga réttlætingu.“ Hún greindi einnig frá því að Ísland ætli að styðja við Úkraínu með aukinni mannúðaraðstoð og verður um einni milljón evra veitt til mannúðaraðstoðar í Úkraínu.
Ég flutti yfirlýsingu um stöðuna í Úkraínu á Alþingi rétt í þessu. Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda fordæmi ég...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Thursday, February 24, 2022
Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ekki hefur verið lagt sérstakt mat á ástandið í Úkraínu þar sem algjör óvissa er um hvernig aðstæður þróast. „Gert er ráð fyrir að lagt verði mat á aðstæður í Úkraínu eftir því sem atburðum vindur fram og fregnir berast af ástandi í landinu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.