Um 68 prósent kínverskra karlmanna reykja sígarettur reglulega en aðeins 3,2 prósent kínverskra kvenna. Þetta leiðir ný rannsókn í ljós sem birt var í læknavísindaritinu The Lancet 8. október síðastliðinn. Búist er við því að þessar gríðarlega miklu reykingar kínverskra karlmanna muni valda miklum vanda fyrir heilbrigðiskerfið í Kína á næstu árum, og kostnaður vegna margvíslegra hliðaráhrifa á lýðheilsu þjóðarinnar mun fyrirsjáanlega aukast hratt.
Zhengming Chen, prófessor við Háskólann í Oxford og einn þeirra sem framkvæmdi rannsóknina, segir niðurstöðurnar vera sláandi, en hafi ekki komið rannsakendum sérstaklega á óvart þar sem reykingar karlmanna í Kína séu á alla vitorði. Eitt af því sem sé sláandi er hversu innbyggt það virðist í samfélagið í Kína, að ungir karlmenn, í kringum tvítugt, byrji að reykja og geri það síðan að sínum lífstíl.
Samkvæmt rannsókninni deyja árlega um ein milljón vegna reykinga í Kína en vegna þess hve reykingar eru almennar um þessar mundir, þá er talið að talan verði komin í tvær milljónir árið 2030 og fimm milljónir árið 2050, eða eftir 35 ár. Mikil þörf sé á því að grípa inn í þessa þróun, bæði í gegnum lög og reglur, en einnig í gegnum uppfræðslu, að því er segir í rannsókninni, sem Quartz vitnar til í umfjöllun sinni.
Í Peking einni er talað um að fjórar milljónir manna reyki daglega, og að meðaltali þá sé neyslan um 14,6 sígarettur á dag. Einstaklingar sem reykja eru taldir vera ríflega 300 milljónir en heildaríbúafjöldi er um 1,4 milljarðar manna. Undir lok árs 2013 tilkynntu stjórnvöld um bann við reykingum á opinberum vettvangi, og átti bannið að útfærast á einu ári. Víðs vegar um landið hefur það ekki verið gert ennþá, og benda rannsóknir til þess að ekki hafi þrengt svo að þeim sem reykja, að dregið hafi úr reykingum.