Lyfjastofnun hefur borist um 40 tilkynningar sem annaðhvort varða einstaklinga sem fengu örvunarskammt eða þar sem mögulegt er að um hafi verið að ræða örvunarskammt. Verið er að vinna úr þessum tilkynningum.
Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Kjarnans.
Flestar tilkynninganna flokkast ekki sem alvarlegar og einkennin sem tilkynnt hafa verið eru almennt svipuð því sem hefur verið að koma inn, einkenni á stungustað, flensueinkenni og breytingar á tíðahring, að því er fram kemur hjá Lyfjastofnun.
„Að svo stöddu hefur ekki borið á fleiri tilkynningum um grun um aukaverkanir eftir að heilbrigðisyfirvöld hófu að gefa viðbótarskammta fyrir þá sem fengu Janssen bóluefnið,“ segir enn fremur í svarinu.
Alvarlegar aukaverkanir geta komið upp – en þær eru fátíðar
Ung kona greindi frá því á TIkTok að hún hefði lamast fyrir neðan mitti eftir að hafa fengið örvunarskammt. Í kjölfarið skapaðist umræða um alvarlegar aukaverkanir af slíkum örvunarskömmtum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í vikunni að lömun fyrir neðan mitti væri ekki þekkt aukaverkun af bólusetningu gegn COVID-19. Hann sagði að þó alvarlegar aukaverkanir gætu komið upp vegna bólusetningar væru þær afar fátíðar og að aukaverkanir af völdum sýkingar væru mun algengari.
Á vef Embættis landlæknis kemur fram að allar bólusetningar geti valdið óþægindum. Flestar aukaverkanir séu í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem sé tilgangur bólusetningarinnar og séu yfirleitt þær sömu óháð bóluefni. Þær eru hiti, hrollur, vöðva-, bein- og liðverkir, óþægindi á stungustað, þreyta og slappleiki, höfuðverkur og magaóþægindi.
Örvunarskammtur „siðferðislega rangur“
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur harðlega gagnrýnt ríkar þjóðir fyrir að gefa fólki örvunarskammt á meðan milljónir bíða eftir sínum fyrsta skammti. Ekki liggi fyrir nægileg gögn sem styðji við örvunarskammtinn.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að Mike Ryan, yfirmaður neyðaraðgerða hjá WHO, segði örvunarskammtinn siðferðislega rangan. „Fólk í björgunarvestum er að fá annað björgunarvesti á meðan þeir sem ekki eru í neinu björgunarvesti drukkna.“