Eitt sinn varð ég vitni að óskemmtilegum atburði á leikvelli í París. Faðir sló barnið sitt utan undir. Fólk brást ókvæða við og gerði manninum það ljóst að þetta væri ekki liðið. Hann var flæmdur í burtu af reiðum húsmæðrum og gekk móðgaður út af leikvellinum með barn sitt, niðurlægt og grátandi.
Atvikið sat lengi í mér. Það er vont að verða vitni að ofbeldi, en um leið fannst mér gott að sjá fólk bregðast svona afdráttarlaust við. Maður á nefnilega alltaf að skipta sér af ofbeldi — í hvers konar mynd. Frakkar geta oft verið óþolandi afskiptasamir þegar kemur að börnum, en ég held að það sé í grunninn væntumþykja gagnvart börnum. Það sé mikilvægt að skipta sér af, jafnvel móðga fólk og trufla þegar velferð barna er annars vegar.
Um helmingur flenginga í Frakklandi eru á börnum undir tveggja ára aldri sem hafa engar fosendur til þess að skilja merkinguna eða tilgang athafnarinnar – þau tengja ekki orsök og afleiðingu og skilja því ekki hvers vegna þau eru lamin.
Ég ræddi síðan þetta atvik við nokkra franska kunningja mína sem fannst öllum fyrirlitlegt að slá börnin sín utan undir. Hins vegar voru nokkrir á þeirri skoðun (sem virðist reyndar ansi útbreidd í Frakklandi) að það sé í lagi að flengja börn – svona létt á bossann – ef þau eru óþekk. Þetta finnst mér skrýtið. Ég var ekki flengdur af foreldrum mínum og flengi ekki börnin mín. Og nú er spurt: Má flengja börn? Hefur það eitthvert uppeldislegt gildi? Þetta hefur verið til umræðu upp á síðkastið í frönskum fjölmiðlum og flengingar barna er mikið álitamál í Frakklandi.
Flenging er ofbeldi
Mannréttindaráð Evrópusambandsins sendi frönskum yfirvöldum kvörtunarbréf í vikunni þar sem Frakkar voru hreinlega skammaðir fyrir að sjá í gegnum fingur sér með flengingar á börnum. Bent var á að frönsk lög væru óskýr þegar kæmi að líkamlegum refsingum gagnvart börnum —í raun væri ekkert sem bannaði það. Þessi opinbera kvörtun hefur komið af stað mikilli umræðu um flengingar; hvort þær séu til góðs eða ills. Sitt sýnist hverjum en flestir sérfræðingar mæla ekki með því og tala um að nú sé kominn tími til þess að uppræta þessa tímaskekkju og þetta ofbeldi.
Um helmingur flenginga í Frakklandi eru á börnum undir tveggja ára aldri sem hafa engar fosendur til þess að skilja merkinguna eða tilgang athafnarinnar – þau tengja ekki orsök og afleiðingu og skilja því ekki hvers vegna þau eru lamin. Það eina sem þau læra er ofbeldi segir Oliver Maurel, fyrrverandi kennari sem berst gegn ofbeldi gegn börnum. Hann segir flengingar ekki hafa neitt uppeldislegt gildi. Samt sé ótrúlegur fjöldi Frakka enn að flengja börnin sín. Flestir séu auðvitað í hjarta sínu á móti ofbeldi – en tala um léttar og skaðlausar flengingar. Hins vegar túlka börn verknaðinn sem niðurlægjandi ofbeldi. Þegar ofbeldi er annars vegar þá er fáránlegt að tala um eitthvert afstæði eða blæbrigðamun. Ofbeldi er alltaf ofbeldi.
Hvað á að gera við börn sem aldrei hlýða?
Barnageðlæknar hafa lýst yfir fyrirlitningu sinni á flengingum og segja það mjög varhugavert og hættulegt að aga börn með ofbeldi. Flenging sé í raun og veru merki um stjórnleysi foreldra. Umbun og refsing séu sjálfsögð stjórntæki í barnauppeldi – en flengingar séu ruglandi, óljós og niðurlægjandi athöfn. Þetta er hin almenna niðurstaða franskra geðlækna.
Rannsóknir sýna að 88 prósent þeirra sem beittir voru ofbeldi í æsku beita svipuðum aðferðum síðar á ævinni.
Þeir sem hafa stigið fram og varið flengingar þræta staðfastlega fyrir það að léttar flengingar séu ofbeldi. Í raun er enn stór hluti frönsku þjóðarinnar á því að léttar flengingar geri ekki börnum illt. Þær séu sjálfsögð og einföld refsing þegar börn fari yfir strikið. Flenging sé ekki undir neinum kringumstæðum líkamlegt ofbeldi. Einn af þeim sem hafa stigið fram og varið flengingar er Maurice Berger geðlæknir. Hann segir:
„Létt högg eru ekki niðurlægjandi; flengingar geta verið góðar í hófi, ekki of fastar og ekki of lausar. Þetta eru sterk og skýr skilaboð. Þetta er ekki ofbeldi miðað við margt annað sem börn þurfa að þola dags daglega.“
Eiffel-turninn í París.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni
Rannsóknir sýna að 88 prósent þeirra sem beittir voru ofbeldi í æsku beita svipuðum aðferðum síðar á ævinni. Þótt létt flenging á bossa teljist ekki gróft ofbeldi getur slíkt samt kennt viðkomandi einstaklingi að að slík hegðun sé í lagi; flengingar innræti barninu hegðun sem geti síðar meir haft hættulegar afleiðingar.
„Við eigum ekki að kenna börnum ofbeldi. Punktur. Það getur verið stórvarasamt. Forðumst allt ofbeldi í barnauppeldi,“
segir Elizabeth Gershoff, barnasálfræðingur. Margar rannsóknir sýna fram á sterk tengsl milli flenginga, líkamalegra refsinga barna og kynferðislegs ofbeldis. Kanadísk rannsókn leiddi ljós að kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum tengist í 75 tilvikum af hundrað einhvers konar líkamlegum refsingum. Undir það falla flengingar.
Skýrari lög
Af þessum sökum hafa risið upp hópar í Frakklandi sem telja líkamlegar refsingar og flengingar á börnum vera stórt samfélagslegt vandamál sem brýnt sé að uppræta með skýrari lagasetningu. Tal um blæbrigðamun — að létt högg séu í lagi — sé bæði siðlaust og stórvarasamt. Það sé hlutverk samfélagsins og yfirvalda að vernda börn og búa þeim öruggt umhverfi og skjól. Með því að minnka ofbeldi í hvers konar mynd stuðlum við að öruggara og betra samfélagi. Það sé í raun algjör hneisa og tímaskekkja að ekki sé búið að setja skýr lög um flengingar barna í Frakklandi. Kvörtun mannréttindaráðs Evrópu sé hneyksli fyrir þjóð sem vill vera í forystu þegar kemur að mannréttindum.
Rétt er að taka það skýrt fram að allar líkamlegar refsingar eru löngu aflagðar í frönskum skólum og algjörlega bannaðar. Annars staðar, eins og á heimilum, eru líkamlegar refsingar barna í raun ennþá leyfilegar. Þú mátt ekki lemja nágranna þinn en þú mátt lemja börnin hans. Að þessu leyti njóta börn minni mannréttinda en fullorðið fólk. Lögin verða að vera skýrari og afdráttarlausari – segja þeir sem ganga fram og vilja tafarlausar lagabreytingar.