Stundum getur verið algjört helvíti að fá leigubíl í París. Það er vesen að hringja, það er erfitt að fara út á götu og góma bíl; þeir eru oft lausir en stoppa samt ekki fyrir manni. Leigubílarnir eru of fáir, ferðamennirnir of margir eða eitthvað. Stundum bara skil ég ekki franska kerfið. Margir þeirra taka ekki greiðslukort, svo eru leigubílstjórarnir oftar en ekki pirraðir, fúlir og tala enga ensku.
Þess vegna kom það fáum á óvart að netþjónustan og smáforritið Uber skyldi slá í gegn í París, en það gerir notendum kleift að redda sér fari með einfaldari og ódýrari hætti. Forritið leitar uppi Uber-bíl í nágrenninu sem er kominn til þín innan stundar. Samt er allt brjálað. Sérstaklega í París, en þar hafa komið upp óeirðir og áflog undarfarna mánuði.
Óeirðir í París
Söngkonan og rokkekkjan Courtney Love er ein af þeim sem notar Uber á ferðalögum sínum og lenti nánast í lífshættu í París í síðustu viku á leið sinni út á flugvöll þegar æstir leigubílstjórar réðust að Uber-bíl hennar með bareflum. Hún tístaði á Twitter um þetta allt saman og sagðist öruggari í Bagdad en í París. „Hvar er lögreglan?“ tístaði hún í mikilli örvæntingu þegar rúður voru brotnar, bíllinn beyglaður og brotinn.
Enn og aftur kom til átaka í París milli óeirðalögreglu og leigubílstjóra út af Uber. Þeir lokuðu aðgangi að lestarstöðvum og flugvöllum, götum og hraðbrautum. Brenndu hjólbarða, réðust á fréttamenn og tókust á við lögreglumenn í miklu stíði þar sem táragas og kylfur dönsuðu í loftinu. Franskir leigubílstjórar þefuðu uppi hundruð Uber-bíla og lögðu í rúst.
Já, þeir kunna enn að mótmæla þarna í París! Nú voru leigubílstjórarnir að mótmæla Uber sem þeir segja ólöglegt, en að yfirvöld geri ekkert til þess að sporna við því. Þótt þeir anni varla eftirspurn á sumrin (París er vinsælasti ferðamannastaður heims) þá segja þeir Uber vera grafa undan tilvist sinni.
Þetta olli borgarbúum og mörgum ferðamönnum töluverðum óþægindum, margir misstu af flugi eða lest, og þess vegna virðast fáir hafa samúð með leigubílstjórum. Sumir segjast jafnvel frekar nota Uber eftir öll þessi læti.
Frá nýlegum óeirðum í París vegna Uber. Hér hafa franskir leigubílstjórar velt við Uber-bíl. Mynd: EPA
Löglegt eða ólöglegt?
Sama er uppi á teningnum um allan heim. Leigubílstjórar eru fúlir út af Uber. Fyrirtækið er starfrækt í Asíu, Evrópu, Ástralíu og Ameríku. Það var stofnað í San Fransisco og forstjórinn, Travis Kalanick, er með fjölmörg kærumál á bakinu. Leigubílstjórar og leigubílafyrirtæki eru auðvitað hundóánægð með það að þurfa að greiða himinhá gjöld fyrir atvinnu- og starfsleyfi, akstursgjöld, taka sérstök próf og uppfylla ýmiskonar öryggisákvæði á meðan Uber-bílstjórar sleppa mest megnis við það. Þetta sé ójafn leikur.
Uber hefur gert samninga við marga bílstjóra og smærri leigubílafyrirtæki sem sinna þjónustunni og keyra um á sérstökum Uber-bílum. Þeir þurfa vissulega að uppfylla ákveðin skilyrði en falla samt ekki undir sama hatt og venjulegir leigubílar. Allar greiðslur eru rafrænar á netinu og ýmsir saka því Uber um að stunda svarta og algjörlega ólöglega starfsemi. Þetta sé leigubílafyrirtæki sem brjóti allar reglur.
Samskipti við frönsk yfirvöld er ein löng lagaflækja. Um áramótin var gefin út sú tilskipun að Uber væri með öllu ólöglegt í Frakklandi. Uber-bílstjórar hafa verið handteknir og lögreglan hefur gert rassíu á skrifstofur fyrirtækisins í París. Samt sem áður starfar Uber; það er auðvitað mun ódýrara að panta sér einn Uber en leigubíl. Sama er að gerast í London þar sem Uber hefur slegið í gegn.
Uber virðist vera á gráu svæði þegar kemur að lögum. Það er auðvitað alls ekki bannað að þiggja eða bjóða far; enginn lög geta í raun bannað fólki að þiggja þóknun eða deila kostnaði þegar kemur að akstri. Ágreinungurinn snýst um það hvort Uber sé leigubílafyrirtæki eða ekki. Forsvarsmenn fyrirtækisins neita því. Þetta sé frekar samvinnufyrirtæki. Uber hikar því ekki við að halda áfram þrátt fyrir handtökur, árásir og fleira. Dómstólar hafa heldur ekki útkljáð þetta mál endanlega – það er enn lagaleg óvissa um þetta allt saman.
Travis Kalanick, forstjóri Uber. Mynd: EPA
Heimurinn breytist
Vegna óeirðanna í síðustu viku í París sendi Uber frá sér tilkynningu og sagðist harma árásir og ofbeldi. Það hafi verið sorglegt að fylgjast með slíku. Um hálf milljón manns notar Uber að staðaldri í Frakklandi. Uber virðist því vera komið til þess að vera – hvað sem leigubílstjórar eða yfirvöld gera.
Fyrirtækið vill gera allt til þess að tryggja öryggi farþega og þess vegna biðlar það til mótmælenda að reyna að forðast allt ofbeldi. Það segist samt skilja reiði leigubílstjóranna á tímum hækkandi atvinnuleysis. Uber er nýr veruleiki, nýtt tækifæri fyrir alla til þess að taka upp hagkvæmara og betra fyrirkomulag; bæði fyrir farþega og líka bílstjóra.
Uber er bandarískt snjallsímaforrit, bandarísk uppfinning. Höfuðstöðvarnar eru í San Fransisco. Hugmyndin er í samræmi við hippahugsjónir borgarinnar – að reyna að minnka bílaumferð og mengun, auk lífsgæði og minnka eyðslu. Uber starfar nú í 58 löndum í 300 borgum um allan heim. Margir hafa stælt Uber og til eru ýmiskonar snjallsímaforrit sem sinna sömu þjónustu. Þetta hefur verið kallað „Uber-væðingin“ sem er á mikilli siglingu um allan heim. Þó að Uber sé fimma ára sprotafyrirtæki og bannað víða, er samt talið að veltan á þessu ári verði í kringum 10 milljarða dollara. Þetta er angi af byltingu sem gengur út á samvinnu-hugsjón; að fólk deili bílum, húsum, tækjum og jafnvel mat – allt í gegnum snjallsímatæknina sem tengir fólk saman.
Hugmyndin fæddist í París
Það er kaldhæðnisleg staðreynd í tengslum við öll þessi mótmæli að hugmyndin að Uber fæddist í París þegar forstjórinn, Travis, var á ráðstefnu 2008 og lenti í vandræðum með að ná í leigubíl. Þegar hann var loksins kominn aftur heim til sín í Sílikondalinn, hófst hann handa við að þróa forritið og hafa samband við fjárfesta.
París var síðan fyrsta borg utan Bandaríkjanna þar sem Uber kom á markað 2011. Eftir að starfsemi fyrirtækisins var bönnuð í Frakklandi kom útspilið UberPool í nóvember 2014 með ögn breyttari áherslum. Í síðustu viku voru tveir helstu yfirmenn Uber í Frakklandi handteknir af lögreglunni sakaðir um að stunda ólöglega og hættulega starfsemi – bæði fyrir umferð og almenna borgara.
Mótmæli, óeirðir, ákærur, handtökur og fleira gera því Uber að umdeildasta snjallsímaforriti heims.