Allt frá upphafi heimsfaraldursins þangað til í vor hefur mánaðarleg dánartíðni innan Evrópusambandsins að meðaltali verið 15 prósentum hærra en venjulega. Ísland er eina landið innan EES þar sem dánartíðnin hefur haldist nær óbreytt frá sögulegu meðaltali á þessu tímabili.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum evrópsku hagstofunnar, Eurostat, um mánaðarlega umframdánartíðni (e. excess deaths) á síðustu misserum.
Samkvæmt tölunum náði dánartíðnin hámarki í annarri bylgju faraldursins í nóvember í fyrra, en þá var hún um 40 prósent hærri en meðaldánartíðnin í sama mánuði á tímabilinu 2016-2019. Í fyrstu bylgju faraldursins í apríl í fyrra hækkaði tíðnin svo um rúmlega fjórðung umfram sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin var hæst á Spáni í fyrstu bylgjunni, þar sem rúmlega helmingi fleiri létust en venjulega. Í fyrrahaust og í vetur var dánartíðnin svo hærri í Austur-Evrópulöndum, sér í lagi í Tékklandi og í Slóvakíu.
Á Íslandi var dánartíðnin hins vegar að meðaltali 0,4 prósentum hærri en venjulega á tímabilinu mars 2020 til apríl 2021. Þetta er lægsta meðaltal umframdánartíðni allra 30 Evrópulandanna sem Eurostat mælir. Þróun hennar í samanburði við umframdánartíðni má sjá á mynd hér að neðan.
Líkt og myndin sýnir sveiflaðist tíðnin nokkuð á milli mánaða og náði hámarki í miðri þriðju bylgjunni hér á landi, þar sem hún var 10 prósentum hærra en sögulegt meðaltal. Einnig var hún langt undir sögulegu meðaltali í fyrrasumar.