Hlutafjárútboði í Eik fasteignafélagi lauk í gær. Alls óskuðu um 2.100 fjárfestar eftir því að fá að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir samtals 8,3 milljarða króna. Seldir voru 485 milljónir hlutir, alls 14 prósent hlutafjár, fyrir 3,3 milljarða króna. Umframeftirspurn nam því fimm milljörðum króna. Sölungengi á hlut í útboðinu var 6,8 krónur á hlut og áætlað er að viðskipti með hluti í félaginu muni hefjast í Kauphöll miðvikudaginn 29. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar vegna loka útboðsins.
Það er Arion banki sem seldi þá hluti sem voru til sölu í útboðinu. Um er að ræða nánast allan hlut bankans í félaginu, sem var að öðru leyti að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Arion á eftir söluna 0,2 prósent í Eik.
Þriðja fasteignafélagið á markað
Eik er annað fasteignafélagið sem fer á markað á þessu ári og það þriðja frá upphafi. Hlutabréf í Reitum voru tekin til viðskipta fyrr í þessum mánuði og fasteignafélagið Reginn hefur verið á markaði frá árinu 2012.
Í hlutafjárútboði Reita var 13,25 prósent af heildarhlutafé félagsins til sölu. Arion banki var eigandi þess alls. Meðalgengið í útboðinu var tæplega 63,9 krónur á hlut. Heildarsöluandvirði útboðsins var því tæplega 6,4 milljarðar króna.
Mun meiri eftirspurn var eftir hlutum í Reitum en framboð. Alls bárust tilboð upp á 25,5 milljarða króna. Því var umframeftirspurnin fjórföld.
Nokkrum dögum eftir að bréf með Reiti voru tekin til viðskipta tilkynnt Landsbankinn að hann hefði ákveðið að selja tíu prósent hlut í fasteignafélaginu Reitum, en bankinn á alls um 18 prósent hlut í félaginu. Hluturinn verður seldur í gegnum markaðviðskipti bankans og lágmarksgengi í útboðinu verður 63 krónur.