Fréttin hefur verið uppfærð þar sem forsetaúrskurður á vef Stjórnartíðinda hefur verið uppfærður. Málaflokkur lista og menningar heyrir undir ráðuneyti Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ekki nýjan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson. Guðlaugur Þór fer hins vegar með málefni menningaminja. Guðlaugur Þór fer með stjórnarmálefni sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið skv. 6. tölul. 7. gr. Hér að neðan má sjá skjáskot úr þeim forsetaúrskurði er nú í birtingu og þess sem var aðgengilegur í gærkvöldi.
Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar segir við Kjarnann að um innsláttarvillu hjá Stjórnartíðindum hafi verið að ræða. Sú villa hafi þó ekki haft nein lögformleg áhrif.
Málaflokkum sem heyrðu áður undir mennta- og menningarmálaráðuneytið er nú dreift mun víðar innan stjórnarráðsins, samkvæmt forsetaúrskurði sem birtur hefur verið á vef Stjórnartíðinda. Auk ofangreinds má þar nefna að málefni fjölmiðla, sem sögulega hafa ætið tilheyrt menntamálaráðuneytinu, hafa nú verið færð undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Undir þann málaflokk heyrir til að mynda RÚV og Fjölmiðlanefnd.
Mikið hefur verið rætt um uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga og margir með væntingar til þess að ráðist verði í slíka uppbyggingu sem fyrst.
Engar skýrar ákvarðanir virðast liggja fyrir í þeim málum. Í sáttmálunum segir einfaldlega: Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga. Samkvæmt forsetaúrskurði þá mun Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fara með málefni þjóðarleikvanga í nýrri ríkisstjórn en sá málaflokkur var áður inni í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Jón Gunnarsson yfir útlendingamálum
Þegar stjórnarsáttmálinn og verkaskipting flokkanna þriggja sem mynda ríkisstjórnina: Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var kynnt fyrir stofnunum flokkanna á laugardag kom fram að hluti innflytjendamála ætti að flytjast úr dómsmálaráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið, sem stýrt verður af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, varaformanni Vinstri grænna.
Sá tilflutningur hefur þó ekki orðið með forsetaúrskurðinum í gær og því má vænta þess að hann muni ekki eiga sér stað fyrr en boðuð endurskoðun á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi þeirra með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku lýkur. Þangað til verða öll málefni útlendinga, að frátöldum atvinnuleyfum, á hendi dómsmálaráðuneytis Jóns Gunnarssonar, sem mun sitja þar í að minnsta kosti 18 mánuði. Hann verður því yfir bæði Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, mun taka við ráðherraembætti af Jóni þegar líður á kjörtímabilið.