Geitdalsá á upptök sín í lækjum og tjörnum á hálendinu upp af Hamarsdal og Fossárdal vestan Ódáðavatna, í jaðri svæðis sem nefnist Hraun. Hún rennur til norðurs, á köflum í gegnum gljúfur og í fossaröðum, og á þessari leið falla í hana margar þverár og lækir. Hún er því sannkölluð dragá: Getur verið vatnsmikil í rigningatíð og leysingum en vatnsminni í þurrkum.
Mest af vatni Geitdalsár kemur úr Leirudalsá, á sem rennur í gegnum nokkur stöðuvötn á leið sinni úr vestri. Tvö þessara vatna, sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, munu fara undir miðlunarlón verði áform fyrirtækisins Geitdalsárvirkjunar ehf. að veruleika.
Tvær stíflur yrðu reistar, önnur við miðlunarlón í Leirudal, lón sem yrði í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli og um þrír ferkílómetrar að stærð. Stíflan sú yrði 1 kílómetri að lengd og mesta hæð hennar 18 metrar. Önnur stífla vegna inntakslóns yrði gerð í farvegi Geitdalsár. Hún er áætluð um 300 metrar að lengd og mesta hæð hennar yrði 32 metrar.
Hraunasvæðið nær yfir víðlent hálendi allt frá Eyjabökkum við Snæfell austur yfir vatnaskil, um innanverðan Geitdal og Háups að fjallveginum yfir Öxi og niður í drög suðurfjarða Austurlands.
Nú þegar hefur verið virkjað mikið á vatnasviði Hraunasvæðis eða allt frá Hálslóni og sunnan við Snæfell þar sem svokallaða Hraunaveitu er að finna með fjórum misstórum uppistöðulónum.
Síðustu lítt röskuðu víðerni Hraunasvæðis eru hinsvegar utar á hraunum þar sem Geitdalsárvirkjun er einmitt fyrirhuguð. Enn er unnið að frumhönnun virkjunarinnar en fyrsta skrefið í mati á umhverfisáhrifum hefur nú verið tekið með auglýsingu matsáætlunar framkvæmdarinnar. Virkjunin yrði 9,9 MW, rétt undir 10 MW mörkunum sem hefði þýtt að kosturinn yrði að fara í ferli rammaáætlunar.
Virkjanir af þessari stærðargráðu hafa verið kallaðar „smávirkjanir“ en geta þó vissulega haft umfangsmikil umhverfisáhrif. Allar breyta þær ásýnd lands og hafa með ýmsum hætti áhrif á lífríkð. Að minnsta kosti fimm slíkar eru nú á teikniborðinu á Norðaustur- og Austurlandi.
Landið sem Geitdalsárvirkjun er fyrirhuguð á er annars vegar í eigu Múlaþings, hins nýstofnaða sveitarfélags á Austurlandi, og hins vegar íslenska ríkisins. Samið hefur verið við báða aðila um rannsóknar- og nýtingarleyfi.
Krafa um þjóðlendu
Skýrsla Geitdalsárvirkjunar ehf. um matsáætlun framkvæmdarinnar var gerð í febrúar en í lok janúar hafði fjármála- og efnahagsráðherra afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á Austfjörðum. Og landið sem virkjunin er áformuð á er innan þess svæðis. Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Sagan segir okkur að það getur tekið dágóðan tíma, nokkur ár, að fá úr þjóðlendumálum skorið enda fara þau oft og tíðum fyrir dómstóla. Óbyggðanefnd hefur þegar lokið umfjöllun um rúmlega 90 prósent af meginlandi Íslands og af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86 prósent þjóðlendur en rúmlega 14 prósent eignarlönd. Hluti framkvæmdasvæðis Geitdalsárvirkjunar er innan miðhálendislínunnar.
Vék vegna fjölskyldutengsla
Geitdalsárvirkjun ehf. er alfarið í eigu Arctic Hydro hf. Það félag er nú skráð í eigu sex aðila og á Quadran Iceland ehf. (nú Qair Iceland) sem áformar fjölmörg vindorkuver vítt og breitt um landið, stærstan hlut eða 38 prósent. Stjórnarformaður þess er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra í tíð Geirs H. Haarde.
Adira Hydro á 23 prósent í Arctic Hydro og Snæból, fjárfestingafélag Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, á 18 prósent.
Tíu prósenta hlutur Arctic Hydro er svo í eigu Hængs ehf. Það félag er að fullu í eigu Benedikts Einarssonar, frænda Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Þegar samið var um vatnsréttindi og landnýtingu innan ríkisjarðarinnar Þingmúla vegna Geitdalársvirkjunar fyrir tveimur árum vék Bjarni sæti í málinu vegna fjölskyldutengslanna. Miðlunarlónið í Leirudal er áformað á landi ríkisins en önnur virkjunarmannvirki, m.a. þrýstipípa og stöðvarhús, eru í landi Múlaþings (áður Fljótsdalshéraðs).
Skapa „raunveruleg verðmæti“
Arctic Hydro „hefur sérhæft sig í þróun virkjunarkosta,“ segir í matsáætlun vegna Geitdalsárvirkjunar. „Fyrirtækið leitar uppi og stendur að frumhönnum, frekari útfærslum og framkvæmdum mögulegra virkjunarkosta, hvort heldur sem slíkir kostir hafa áður komið til skoðunar af hálfu annarra eða þá að félagið þróar áður óþekkta virkjanakosti frá grunni. Fyrirhuguð áform um virkjun Geitdalsár eru til komin sem áður óþekktur virkjunarkostur og fellur að langtímamarkmiðum Arctic Hydro um að skapa raunveruleg verðmæti til lengri tíma litið fyrir alla hlutaðeigandi aðila.“
Í matsáætlun virkjunarinnar kemur fram að framkvæmdin myndi hafa áhrif á farveg Geitdalsár á tólf kílómetra kafla, Leirdalsá á þriggja kílómetra kafla og Miðá á eins km kafla. Fleiri ár yrðu undir, því til stendur að veita einni ónefndri á til viðbótar í skurði í miðlunarlónið.
Áhrifanna mun því gæta allt frá miðlunarlóninu í Leirudal, niður í inntakslónið í Geitdal og áfram að stöðvarhúsi. Vatninu yrði veitt frá inntakslóninu og niður í stöðvarhúsið í gegnum 6,6 kílómetra langa niðurgrafna þrýstipípu.
Í Leirudalslóni yrði vatn geymt fyrir tímabilið desember og út mars þegar náttúrulegt rennsli er í lágmarki. Í meðalári yrði safnað í lónið frá lokum apríl og út allan júlímánuð en þá yrði að jafnaði byrjað að hleypa úr því en þó í litlu magni út nóvember. Á tímabilinu desember og út mars yrði hleypt mest úr því.
Þetta þýðir að með tilkomu Leirudalsstíflu myndi rennsli á milli hennar og inntakslóns skerðast frá lokum apríl og út allan júlí. Skerðingin yrði mismikil eftir árstíðum, minnst á sumrin en mest á veturna. „Gróflega áætlað skerðist rennslið á bilinu 50-80% yfir sumarið,“ segir í matsáætlun Geitdalsárvirkjunar og um 80 prósent á veturna.
Rennslisbreytinga yrði þó vart alla leið niður að Lagarfljóti, þangað sem Geitdalsá rennur að lokum, þá sameinuð öðrum í Grímsá. Á þetta benti Veiðimálastofnun m.a. í umsögn sinni um rannsóknarleyfi Orkustofnunar vegna virkjunarinnar árið 2016. Sagði stofnunin að virkjunin myndi hafa áhrif á rennslishætti og lífríki Geitdalsár, þveráa hennar sem og rennsli Grímsár.
Í umhverfismatsskýrslu, sem er næsta skrefið í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, verður m.a. lagt mat á magn og útbreiðslu fiskitegunda í þeim ám, vötnum og tjörnum sem yrðu fyrir áhrifum og t.d. rafveitt á líklegum búsvæðum og uppeldisstöðvum laxaseiða. Þá verður að rannsaka áhrif á fugla en framkvæmdin gæti raskað varpstöðvum þeirra auk þess sem skert vatnsrennsli kann að hafa áhrif á fæðuöflun. Líkt og lög gera ráð fyrir verða fleiri þættir metnir, m.a. möguleg áhrif á sérstakar jarðmyndanir, röskun á gróðri og á högum hreindýra sem halda til á þessum slóðum.
Matsáætlun Geitdalsárvirkjunar er hægt að nálgast á vef Skipulagsstofnunar. Allir geta veitt umsögn um hana og skulu þær berast stofnuninni eigi síðar en 5. apríl næstkomandi.