871 umsókn um alþjóðlega vernd barst stjórnvöldum í fyrra sem er fjölgun um 33 prósent frá 2020 þegar umsóknirnar voru 654. Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft töluverð áhrif á umsóknir um alþjóðlega vernd en fjöldi umsókna í fyrra voru örlítið fleiri en árið 2019 þegar þær voru 867.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð frumvarps um breytingu á lögum um útlendinga sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Samhliða fjölgun umsókna hafa heildarútgjöld vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd aukist undanfarinn áratug, eða úr rúmum 220 milljónum árum 2012 í rúmlega 3,3 milljarða árioð 2020. Kostnaður á síðasta ári nam 2,3 milljörðum króna. Inn í þessar tölur vantar þó útgjöld vegna reksturs Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála.
Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd tífölduðust á fjórum árum þegar þær fóru úr 118 árið 2012 í 1.132 árið 2016. Í kjölfarið réðust stjórnvöld í aðgerðir til að draga úr „fjölda bersýnilega tilhæfulausum umsóknum“ og fækkaði umsóknum í 1.096 árið 2017 og 800 árið á eftir. Frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem nú er í samráðsgátt stjórnvaldavar fyrst lagt fram að Sigríði Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, vorið 2018 og var þá fyrst og fremst viðbrögð við mikilli fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi, ekki síst frá fólki sem þegar hefur verið veitt vernd í öðrum ríkjum Evrópu.
Fjöldi umsókna jókst um mitt ár í fyrra
Árið 2019 voru umsóknirnar 867. Árið eftir, þegar heimsfaraldur COVID-19 skall á, fækkaði umsóknum hér á landi fyrst um sinn. Í mars 2020 fækkaði umsóknum um 35% frá fyrstu tveimur mánuðum ársins og í apríl bárust einungis fimm umsóknir og fjórar í maí. Á hinn bóginn fjölgaði málum í efnismeðferð umtalsvert þegar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákváðu tímabundið að aðlaga mat sitt á því hvort taka bæri Dyflinnar- og verndarmál til efnismeðferðar að virtum þessum sérstöku aðstæðum sem komu upp í kjölfar faraldursins.
Í júní 2020 fjölgaði umsóknum á ný, einkum á síðari hluta mánaðarins, þegar 19 umsóknir bárust og í júlí voru þær 106 en það voru flestar umsóknir sem höfðu borist í einum mánuði síðan í ágúst 2017. Heildarfjöldi umsókna 2020 var 654.
Fyrstu fimm mánuði ársins 2021 bárust heldur fáar umsóknir um alþjóðlega vernd eða að jafnaði um 30 á mánuði. Fjöldi umsækjenda jókst hins vegar hratt í byrjun sumars. Í júní til september bárust að meðaltali um 75 umsóknir á mánuði og í október einum bárust 124 umsóknir. Á árinu 2021 bárust samtals 871 umsókn um alþjóðlega vernd og fjölgaði þeim því um 33% milli ára, þrátt fyrir áframhaldandi takmarkanir vegna Covid-19 heimsfaraldursins.
228 bíða flutnings úr landi
Í greinargerðinni er fjallað um nýjar áskoranir sem stoðdeild lögreglu mætti við að flytja úr landi einstaklinga sem hlotið höfðu synjun á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd, vegna krafna viðtökuríkja um PCR-próf, vottorðs um afstaðna Covid-19 sýkingu eða bólusetningu gegn veirunni. „Þeir einstaklingar, sem lögum samkvæmt eiga að yfirgefa landið, hafa nýtt sér þessa stöðu og ítrekað neitað að undirgangast PCR-próf og komast þannig undan framkvæmdinni. Jafnframt reyndist erfitt og í sumum tilvikum ómögulegt fyrir stoðdeild að fá upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum um það hvort einstaklingarnir væru bólusettir eða höfðu þegar fengið Covid-19 sýkingu,“ segir í greinargerðinni. Hópur þeirra einstaklinga sem biðu flutnings úr landi hefur stækkað hratt og í lok árs 2021 var um 228 einstaklinga að ræða.
Í greinargerð frumvarpsins segir að frumvarpið sem lagt er fram nú sé „liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna og felur í sér efnismeiri lagabreytingar varðandi móttöku og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd en gerðar hafa verið til þessa“.
Sams konar frumvarp hefur þrisvar áður verið lagt fyrir þingið en hefur ekki náð fram að ganga. Frumvarpið varðar ákvæði útlendinga um alþjóðlega vernd og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, útgáfu tímabundinna leyfa vegna sérstakra ástæðna. Frestur til að skila inn umsögn um frumvarpið rennur út á föstudag, 4. febrúar.