Þann 14. ágúst rigndi á efsta punkti íshellu Grænlandsjökuls, í fyrsta skipti svo menn viti til. Þau sem starfa þar við veðurmælingar og rannsóknir vöknuðu við hljóðið í regninu og voru undrandi á að sjá regndropa á rúðum. Enginn man eftir að hafa séð svo mikið sem dropa koma úr lofti á þessum slóðum áður.
Hitastigið við veðurstöðina efst á jöklinum, í 3.216 metra hæð, var yfir frostmarki í um níu klukkustundir samfleytt, að því er fram kemur á vef bandarísku stofnunarinnar NSIDC, sem fylgist með snjó og ís víða um heim.
Samkvæmt því sem segir í umfjöllun Washington Post um þennan fordæmalausa veðuratburð rigndi á toppnum með hléum í um 13 klukkustundir, en enginn veit nákvæmlega hversu mikil rigningin var.
Það voru nefnilega engir regnmælar á staðnum, enda bjóst enginn við því að það færi að rigna í þessari hæð.
Þarna er líka eiginlega alltaf frost. Raunar hefur hitastigið á toppi Grænlandsjökuls einungis farið þrívegis yfir frostmark á síðustu 32 árum, eða frá því að veðurmælingar þar hófust árið 1989. Fjórða skiptið var síðan núna 14. ágúst og hefur hitastigið aldrei risið yfir frostmark jafn seint á árinu og í ár.
Samkvæmt borkjarnamælingum sem gerðar hafa verið á toppi Grænlandsjökuls eru engin merki um að ís hafi bráðnað þar frá því seint á nítjándu öld og þar til árið 1995, er hiti fór upp fyrir frostmark efst á íshellunni í fyrsta sinn frá því veðurathugunarstöðin var tekin í gagnið.
Hlýtt loft sogast yfir ísinn og stöðvast
Ástæðan fyrir hlýindunum á þessum slóðum síðustu helgi var samspil lægðar við Baffinsland í Norður-Kanada og háþrýstisvæðis sem lá við suðausturströnd Grænlands, en vegna fyrirstöðunnar sem háþrýstisvæðið skapaði dróst heitt loft úr suðri með lægðinni inn á íshelluna, stöðvaðist þar og olli töluverðri bráðnun á yfirborði jökulsins, dagana 14. til 16. ágúst.
Nákvæmlega þessi hringrás loftsins er kunn orsök bráðnunar á yfirborði Grænlandsjökuls og virðist afleiðingar þessarar stöðnunar heitra loftstrauma sem staðnæmast yfir jöklinum vera að verða alvarlegri, að sögn vísindamanna.
Þrátt fyrir að það hafi eitt og sér ekki gríðarleg áhrif að bráðnun hafi átt sér stað á Grænlandsjökli á dögunum – og reyndar einnig í júlímánuði – er það mat vísindamannsins Ted Scambos við Colorado-háskóla í Bandaríkjunum að bráðnunin um liðna helgi og rigningin á toppnum gefi til kynna að aukinn ákafi kunni að vera að færast í bráðnun Grænlandsjökuls.
Hann segir við Washington Post að rétt eins og hitabylgjan sem gengið hefur yfir norðvesturhluta Bandaríkjanna að undanförnu sé þetta „nokkuð sem er erfitt að ímynda sér að gæti verið að eiga sér stað án áhrifa loftslagsbreytinga.“
„Grænland, eins og aðrir staðir í heiminum, er að breytast,“ segir Scambos við blaðið.
Fyrr í mánuðinum kom út nýjasta skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, þar sem sagði meðal annars að enn greinilega væri orðið en áður að athafnir mannkyns væru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi.